Málþing Hjalta Hugasyni til heiðurs 20/42022

Fáa vil ég frekar mæra

… 20. apríl 2022, Neskirkju.

Þing til heiðurs Hjalta Huga sjötugum.

Hver dagur er dýrmætur, því að jörðin hótar brátt að henda okkur fram af sjóndeildarhring. Lífið er núna. Til hamingju elsku Hjalti með allt sem þú hefur verið og starfað. Til hamingju Ísland!

Ég dái fáa menn jafn mikið og Hjalta Hugason. Svo þykir okkur auðvitað vænt um hann. Get ekki þakkað honum nóg fyrir að vera týpa og slá um sig, minnir mig á Eggert minn heitinn og Geir Waage. Kvikir karlar, hugljómaðir, af þeim gneistar töffaraskap, ljóngáfaðir, tóku sér völd. Þjónuðu, gleymum ekki hve háskólakennsla og prestsembætti fela í sér mikla þjónustu, þótt séra og prófessors titillinn sé góður og hollt að gefa af sér. Ég hitti kollega Má Jónsson nýlega, og við fórum yfir það saman hve mikið pex það væri að vera háskólakennari, stjórnun, fundir, stuðningur við nemendur, yfirlestur, kennsla, allskyns vesen … hve hólpin ég var að geta verið ein úti í bæ að skrifa bækur í friði.

Háskólakennarar hafa rannsóknarskyldu og -rými. Hjalti sameinaði fræðimennsku og ritstjórn við  verkið sem leiddi leiðir okkar saman, stórvirkið Kristni á Íslandi í fjórum bindum. Nýlega flaug sú fregn um samfélagið að til hafi staðið að henda stórum lager þess ritverks á haugana, en vel tókst að aftra því. Ég hef hitt presta sem hvorki þekkja Kristni á Íslandi né eiga. Bölvað óþarfa rótleysi og skortur á söguvitund, þegar þessar fínu rannsóknir liggja fyrir í 4 bindum. Í útgáfuteiti Eiríks Rögnvaldssonar um daginn hitti ég Helga Bernódusson, sem sat endalausa fundi vegna verksins fyrir hönd alþingis. Hann viðurkenndi þessi kynningarmistök, þegar ég rak þau í nefið á honum. Víst hefði verið mistök að splæsa tugmilljónum í ritun kristnisögu vorrar í tilefni af þúsaldar afmæli kristni í landinu, en gleyma að auglýsa verkið eða gefa réttum aðilum. En sá þáttur lá ekki á hans borði, svo hann bar enga ábyrgð á því. Látum ekki slíkt henda í samfélagi voru. Verum á vaktinni.

Alþýðan borgar brúsann á meðan fílabeinsturninn læsir góssið sitt inni. Lýðræðið sem við búum við er í raun höfðingjaveldi. Ég minntist á það í sama útgáfuteiti við þann sem fagnaði, Eirík Rögnvaldsson, sem bjó til fjölsótta Fésbókarsíðu um Íslenska tungu, að nú þyrfti að finna leið nýrrar tækni, svo menning fárra rati í kjöltu almennings. Til dæmis, gætu háskólar ráðið ritfæra menn til að skrifa úrdrætti lokaritgerða og rannsókna, myndlistamenn gætu myndskreytt og pakkinn verið opinn og aðgengilegur á netinu, í hljóðbókarformi líka. Þetta þarf ekki að kosta svo mikið. Alþingi mætti taka frá pening, borgin styðja og svo safna og biðja um frjáls framlög til að greiða þeim sem kunna að umskrifa kjarna flókinna rannsókna á mannamál og gera aðlaðandi. Leggja í vefinn. Þá kveikja margir og tengja inn á samfélagsmiðla, og kvikni djúpur áhugi geta þeir sem vilja fundið þyngri útgáfuna. Nýlega sat ég fundi hjá Félagi um 18. aldar fræði, þar sem fjögur afbragðs erindi voru flutt. Við höfum ekki efni á því að kosta miklu til sem samfélag og vanrækja að láta afraksturinn = auðlegðina flæða til fólksins.

Kristni á Íslandi í fjórum bindum er glæsilegt verk og óhemju vinna var lögð í rannsóknir, skriftir, myndvæðingu og hönnun útlits. Vegna sænsks syngjanda raddar Hjalta fannst mér strangt og vandað vinnulagið sænskt, er sjálf swedophil, las einn vetur í Lundi og hef farið margar ferðir á vinnuhæli rithöfunda í Stokkhólmi og Visby Gotlandi. Ég áttaði mig fljótt á því, er vinnan var komin á rekspöl, að ég hafði notið æðstu menntunar í sagnfræði sem þá var hægt að ljúka hér á landi, án þess að nokkurn tíma hefði verið minnst á kristni að heitið gæti. Kaldastríðið var í algleymingi og kennarar allir vinstri sinnaðir nema Þór Whitehead. Blindi bletturinn var alfarið á því sem mestu skipti í hugmyndasögu aldanna. Pólitík, hagsaga og hversdagssaga annalistanna skilaði sér aftur á móti vel.

Hjalti var afbragðs ritsjóri. Hann var í senn strangur og ljúfur stjórnandi, sem ekki er öllum gefið. Þetta var auðvitað heilmikill pakki, endalausir fundir. Aðalhöfundar lásu texta eftir hina aðalhöfundana, rýndu í og potuðu, að ógleymdum textum sérfræðinga sem rituðu í hvert hefti. Við Pétur Pétursson tókum við fjórða bindinu þegar verkið var komið á rekspöl og skrifuðum hálft fjórða bindið hvort. Eins árs laun fengum við bæði og ég sver að verkið tók mig miklu lengri tíma. Sumir aðalhöfundar voru í embætti með rannsóknarskyldu, og visst óréttlæti að við sem vorum alfarið á eigin vegum fengjum sömu laun og háskólamennirnir. Ég nýtti hluta af launum annarra verka til að koma mínum texta í höfn. Kristni á Íslandi IV fyrri hluta.

Hjalti skrifaði fyrsta bindið: Frumkristni og upphaf kirkju. Gunnar F. Guðmundsson var aðalhöfundur annars bindis: Íslenskt samfélag og Rómakirkja, og fannst mér hans texti, að öðrum ólöstuðum, sérlega ljómandi. Loftur Guttormsson átti þriðja bindið Frá siðaskiptum til upplýsingar. Fjórða bindið okkar Péturs hét Til móts við nútímann. Minn hluti: Öld frelsis, lýðvalds og jafnaðar. Hluti Péturs: Þjóðkirkja, frelsi og fjölbreytni.

Ekki veit ég hverjum það var að þakka að ég var kölluð til þessa verks, en í mínum huga var Hjalti yfirritstjóri sá er valdið hafði. Persónugeri ég hann sem ritverkið reyndist „hann“ mikill örlagavaldur í mínu lífi. Ég sé ekki alveg fyrir mér að nokkur annar ritstjóri hefði getað siglt þessu stóra skipi svo farsællega alla leið. Enda hét umfjöllum Gunnars Karlssonar sagnfræðings um verkið: Verkið sem tókst að vinna: um Kristni á Íslandi I-IV. Það segir nokkuð um hvílíkt afrek þetta var, – þeir vissu og skildu sem höfðu ríka reynslu eins og Gunnar hennar Silju.

Auðvitað var stressandi þegar hinir höfundarnir rýndu hálfklárað verk manns. Man ég glöggt pínlegt andrúmsloftið heilu síðdegin í Þórshamri, þegar svo bar undir. Nógu viðkvæmt er að láta eitt ritstýri pota í verk sitt, hvað þá marga fræðimenn og ritsjóra á opnum fundi. Sjálfur skrifaði Hjalti fyrsta bindið með öðru starfi, sem var afrek. Hjalti klárar.

Vinna mín við þetta verk varð til þess að ég skip mitt rak í fjöru á eyju guðfræða og presta. Öðru vísi mér áður brá. Hafði að vísu skrifað ævisögu séra Snorra á Húsafelli þannig að ég kunni nokkuð í kristnisögu 18. aldar, en þarna opnaðist 19. öldin mér og allar hinar, á þeim endalausu síðdegis fundum og lestrum allra texta í öllum bindum. Ég kynntist mínum sérfræðingum vel, séra Gunnari Kristjánssyni á Reynivöllum í Kjós síðar prófasti, sem skrifaði um postillur, Herði Áskelssyni organista og kórstjóra Hallgrímskirkju sem skrifaði um tónlistina, Einari Sigurbjörnssyni prófessor sem fjallaði um sálmana og Ingu Huld heitinni, sem skrifaði kristnisögu kvenna allra alda.

Varð ég fyrir vikið kirkju og prestavinur. Ég var í essinu mínu í sumar, tvisvar kölluð í Skálholt, fyrst til að stýra þingi Hildar Auðar Hákonardóttur, systur Ingu Huldar um nýju bækurnar hennar um biskupsfrýrnar, svo til að flytja hátíðarræðu á Skálholtshátíð. Þá náði ég hæstum hæðum úti á hól í sólskininu með Lilju systur og nokkrum prestum, karlkyns, hehe.

Við rannsókn míns hluta í Kristni á Íslandi kolféll ég fyrir Matthíasi Jochumssyni og eyddi fimm árum ævi minnar í ævisögu hans. Skrifaði ævisögu Sigrúnar Jónsdóttur kirkjulistakonu þó áður, komin með tærnar nærri kristni. Jakob dómkirkjuprestur samdi lista yfir verk hennar, aftast í bókinni.

Matti var engin væluskjóða þjóðsöngs, eins og Laxness sagði, heldur uppreisnarmaður. Satúrnus étur börnin sín, eðlilega þolir yngra skáld ekki ofurvald yfirskálds eldri kynslóðar. Með því að smita þjóðina af nýguðfræði tókst Matthíasi og prestum sem hann blés anda í brjóst að lífga band almættis og þjóðar lengur en ella. Um 1990 sagðist enn hátt í 90% þjóðar trúa á Guð, á meðan sambærileg tala var um 40% á hinum Norðurlöndunum.

Ég ber djúpa virðingu fyrir prestum í þátíð og nútíð, því að þeir sinna mönnnum á viðkvæmustu krossgötum lífsins. Skíra börn og ferma, vígja fólk saman, sinna sjúkum og grafa dauða. Engar smátaugar, grímur og brynjur þarf til að standa slíka vakt, gleðistunda og sorgar. Hjalti hefur staðið þá vakt lengi að rækta sýn og styrk verðandi presta sem sagnfræðingur í guðfræðideild.

Afhelgun tók smám saman völdin, upplýsing, skynsemishyggja og vísindahyggja gerðu æ viðkvæmara að fara með misgóðan texta og guðspjöll. Barnið vissi að frjálst var að hugsa og við tilfinningar ræður maður vart. Krossinn hefur mér alltaf þótt ógeðslegur. Um mig hefur alltaf farið og fer enn þegar ég sé vesling Jesúm hanga þar sem orm á öngli og kveljast. Rómverjar hengdu á góðum degi hundruð og þúsundir á krossa. Krossinn var og er tákn ofbeldis og yfirgangs, enginn getur neitað því. Í sjálfu sér mætti finna betra tákn, sumir kirkjulistamenn leysa þann vanda, með því að setja hring inn í kross í glerlistaglugga ofan við altarið, eins og í Reykholtskirkju. En ofbeldi Rómverja má aldrei gleymast né annarra yfirgangs óþjóða. Ítalir urðu hræddir þegar hávöxu Keltarnir tóku að kíkja niður á Pósléttuna, urðu að verjast þjóðflutningaþjóðum og lögðu að lokum skjöld við skjöld og heiminn undir sig. Kristnin með kærleiksboðskap sinn, var uppreisn gegn viðbjóði heimsveldisins, sem kúgaði allar þjóðir og skattlagði.

Þegar ég var í M.H. var ekkert töff nema vera afar vinstrisinnaður og afneita kristninni. Enginn trúir meyfæðingu, og Kristur var samkvæmt einu guðspjallinu tekinn snemma niður af krossinum vegna páskahátíðarinnar. Var María ólétt eftir föður sinn? Var Jesú bara í dái inni í hellinum? Svona spurningar leita á huga vísindahyggjunnar og þennan vandræðagang þurfa prestar síðan að ganga með í munninum, gegnum þykkt og þunnt. Kraftaverk sem enginn trúir á nema í draumi eða töfraraunsæi. Eilíft er auðvitað lífið sjálft, amman gleðst gömul við að sjá barnabörnin þurfa pláss, og fer glöð í ruslið. Þrátt fyrir allan vandræðagang kýs enn 70% þjóðar ramma kristni og allir fá leg í kirkjugarði. Flestir prestar komast vel hjá báli töfranna með því að kalla það að deyja að fara inn í ljósið. Sem má til sanns vegar færa.

Öll dýr unna öryggi endurtekningar. Hestar vilja gjöf á vissum tíma. Við viljum mörg viðhalda ramma trúarmenningar þótt töfrar trúar stríði gegn vísindum. Trú stendur alltaf fyrir sínu og byggir á efa samanber hugtakið. Auk þess sem trúarlíf hvers og eins er einkamál? Handan raunveruleikans eru víddir drauma og og tilfinninga. Ég er orðin löglegt gamalmenni og æsi mig sjaldan, helst ef ég þarf að vernda málleysingja eða einhvern sem ráðist er á. Hef harnað sem kerla og krosspíningin meiðir mig ekki lengur, nema ég fari þangað í innlifun sampíningar. Eiginlega fer bara tvennt í taugarnar á mér við íslenska kristni samtímans. Annarsvegar kórarnir. Söfnuðurinn er hættur að syngja. Prestar ættu að hvetja fólk til að syngja með við allar athafnir. Það er fúlt fyrir söngvara, eins og mig, að sitja úti í kirkju og fá ekki að syngja. Lútersk tilbeiðsla byggir á söng allra. Svo líkar mér illa að trúarbrögð okkar sinni ekki líkama okkar. Best væri að hafa lausa stóla í sem flestum kirkjuhúsum og nýta þau til að sameina bæn og liðkun. Dansa almættinu til dýrðar til dæmis, við erum mörg stirð og veik í stoðkerfi af því að sitja á stólum, vanrækja teygjur og dans.

Ég tala um mig í sjálfhverfu minni, ekki Hjalta, en sjálfur er maður heimurinn, líkt og jörðin speglar himininn. Hnútarnir eru meira og minna þeir sömu sem meiddu mig og gera starf prófessora við guðfræðideild erfitt. Til skamms tíma skyggði á samband mitt við kristnina að eiga bestu vini sem eru/voru hommar fullir af beiskju út í kirkjuna. Samband margra við kirkjuna gegnum tíðina má kalla ástar-haturs, enda var kirkjan valdatæki höfðingjaveldis, framlenging af miðstýrðu valdakerfi Rómaveldis, þótt skorið væri á þau bönd var einkaréttur og heilaþvottur samur ef ekki verri eftir siðskipti. Verst að fyrirgefning skriftanna trosnaði er allir voru leystir í einu án skrifta. Umskurður hugarfarsins er ljós í sumum kennisetningunum og tvískinningur ógurlegur og staða kvenna til skamms tíma.

Undir handleiðslu Hjalta við skrif kristnisögunnar lærði ég að trúarlíf er eitt, trúariðkun annað og bókstafir hugmynda. Hugmynd býr í höfði, tilfinning í hjarta og kviðdómur í iðrum, kviðvitið. Sekt kynlífs varð óhjákvæmileg afleiðing þess að á 4. öld e. Kr, var útburður stúlkubarna bannaður og Evrópa fylltist fyrir vikið svo af fólki, að við urðum að leggja undir okkur heiminn með öllum þeim viðbjóði sem fylgdi. Best þekki ég eyðileggingu kynþátta í Vesturheimi, vegna ársdvalar ung í Mexíkó liggja sterkar taugar þangað, afrískur dans í Kramhúsinu og dansferð til Gíneu Conakry lét mig kynna mér þrælasöluna og gera útvarpsþætti um það efni.

Stóru línurnar í sögunni heilla mig, sem löglegt gamalmenni er unnið hefur meira og minna við sagnfræði alla mína kattartíð. Endurreisn Evrópu upp úr 1500 hafði með menningarblöndun að gera. Hugtakið endurfæðing er bein þýðing á Renaissance. Endurreisn vísar til þess að við náðum með hjálp gleymdra bóka að tileinka okkur ýmislegt í menningu hins klassíska heims, er „myrkri miðalda“ lauk. Hugtakið endurreisn er rangt því að nýir hljómar tóku strax að umskapa menningu Evrópu. Endurfæðing vísar til þess að ný holdgun menningar átti sér stað og vísaði fram til nýrra undra. Var það karlremban sem kaus reisn fram yfir fæðingu? Broskerling.

Eftir „landafundi“ streymdu hugmyndir annarra menningarheima með æ meiri þunga inn í vitund Evrópu, og náðu að lokum að spyrna við einokun kirkjunnar undir merkjum Upplýsingar. Nýr tónn var sleginn í vestrænni hugsun, sem hafði frá því að kristni tók völd beðið dómsdags. Samkvæmt draumi Nebúkadnesar hafði síðasta stórveldið af fimm, Rómaveldi, liðið undir lok. Aldrei kom heimsendir, ekki einu sinni þegar ár stórra tölustafa rann upp svo sem árið 1000 og árið 1500. Áfram gekk rófan.

Upplýsingin hugljómaðist af sjálfstrausti tæknilegra framfara, sem svöruðu fólksfjölgun. Bullandi bjartsýni og afhelgun fylgdi, sem fól í sér trú á framþróun. Reynt var að koma aftur á höfðingjaræði (lýðræði) er ríkt hafði, áður en þing Norður-Evrópu voru lögð niður. Ferli siðskipta og baráttan, fyrst fyrir einveldi og svo gegn því, kostaði óhemju blóð, trúarbragðastríð og byltingar.

Siðskiptin voru uppreisn Norður-Evrópu gegn fornu valdi Rómar. Konungar siðskiptalanda náðu ekki síst að styrkja stöðu sína vegna auðs klaustra, sem streymdi í kistur þeirra. Í stað tvíhöfða valds höfðingja og kirkju komst alvald konunga á. Kirkjan hélt sínu sem rammi siðanna og lögskipuð hugmyndafræði, getum við sagt og höfðingjar sátu enn í feitum brauðum.  Óhætt er að segja Vísindin hafi svo smám saman öðlast stóran hluta þess valds sem kristnin hafði. Það vald veður seint smassað, því vísindin geyma lykla að eðli tilverunnar.

Við taugaáfall tveggja heimsstyrjalda rann framfaratrúin á haf út í blóðflóði og fram spratt Tilvistarhyggja. Tilvistarhyggja tuttugustu aldar ráðlagði hverjum og einum að ríða sér persónulegt öryggisnet. Hún hvetur okkur til að byggja hof í ólgusjó offramboðs hugmynda sem stangast á. Hyggja hvers og eins kemst þannig á flot og í höfn. Engir tveir eins … engum til meins. Hið mannmiðjaða fór á flug … og lenti fullmótað sem fugl í lundi frelsis. Fyrst voru þetta fáir einstaklingar, en biðukollan söng ómótstæðilegt lag. Frelsi er álag, maður fæddist ekki lengur inn í stétt og starf. Við getum ekki lengur látið helga bók hugsa fyrir okkur. Lítil stýring gefst til dæmis varðandi það að naga einn sitt kolefnisspor. Frelsið er þungt, en fegurðin kemur til bjargar. Listir og vísindi.

Enn er margt sárt og verður meðan fornar hugmyndir sektar og syndar fljóta meðal ísjaka hlýnunar. Öld einstaklingshyggju ríkir í mannheimum. Mannöld lífheims og jarðar á heimsvísu. Við þurfum að taka stórt skref áfram til aldar umhyggju. Um leið og við lifum bestu tíma í heimi römbum við á barmi eyðileggingar veðurs og lífheims.

Kierkegaard, Nietsche, Kafka, Jóhann Páll Sartre, Camus, Hannah Arendt og heil strolla sem við þekkjum misvel leiddi okkur heim í okkur sjálf. Gleymum ekki Símonu hinnar fögru sýnar = De Beauvoir. Boðskapurinn er einfaldur. Til þess að njóta frelsis og fá byr í segl þarf hver og einn að styrkja innviði sína og hanna sér áttavita, í síkvikum heimi óöryggis.

Sartre sagði „existence precedes essence“,[1] sem útleggjast má á vorri tungu: Tilvera fyrst, kjarni svo. Maður byggir sér hægt og rólega veldi. Sterka borg í brjóstinu. Sjálfstraust. Við eigum þess kost að skynja eigin hrygglengju, með því að kjósa lífsstíl frjálsrar hugsunar. Með vali á skoðunum og persónulegri afstöðu byggjum við kjarnhús þess eplis sem við erum. Þótt mótsagnarkennt virðist, stangast það ekki á við þann „ófrjálsa vilja“ sem vísindin hafa nú staðfest. Heilinn hugsar fyrir okkur, ef svo má segja og tekur ákvarðanir. Það er voluð gleði á köflum að eiga heila og þykjast vera hann … upplýstur um að hann er fenginn að láni hjá tilverunni og lætur illa að stjórn, hehe. Heilinn er poppkorn í örbylgjuofni, með miklum osti. Bros.

Sá asnalegi leysir úr læðingi.

Albert Camus á sæt spakmæli sem þetta: „Enginn sér orkutap þeirra er rembast sem rjúpa við staur við að vera normal.“ Hleypum galskapnum út. Það gerir sýndarmennsku bara gott. Sjálf þekki ég frelsið sem fylgdi því að klippa skugga ímyndar af og senda á beit út í bæ. Fólk fær þekkt fólk á heilann og best er að láta kjaftatífur fá kryddið sitt, gjarna upplogið til að rugla í ríminu. Samvinna með Megasi, þegar hann var hvað alræmdastur eftir plötuna Drög að sjálfsmorði, kenndi mér að hunsa orðróm. Verk okkar tala. Einkalífið eigum við sjálf. Aldrei rugla saman listaverki og listamanni. Við erum í hinu og þessu rófinu og prófinu. Góð „krækjaíber“ úr kristninni boða mildi, skilning og fyrirgefningu, höfum þau alltaf í innkaupakörfunni.

Camus nær vel rómi tilvistar: „Lífið er þversumma ákvarðanna þinna.“ Vúss hve voðaleg örlagaskrefin. Spekingar tilvistar vara við þeim. Óreiða og tilviljanir ráða ferð. Hjarta og höfuð eru oft ósammála, þá kemur taugahnoðið í iðrum til bjargar (önnur orkustöð að neðan) með innsæi sem milljón ár mannlegs varnarleysis mótuðu.

Camus hvetur og til óþekktar í nafni frelsis: „Veröldin er í slíkum fjötrum að tilvist þín þarf að jaðra við uppreisn.“ Dansinn á rönd velsæmis, krakkar, tosar lýð yfir mæri … og landamæralausir húsgarðar verða æ algengari. Þar á ég við cyberspeisið, vináttuna á netmiðlum, böndin sem hunsa stað og stund, gráðu lengdar og breiddar. Við leiðumst flest vel meinandi, þegar okkur líður vel og viljum gera það sem mamma sagði við hvern einasta afkomanda: „Elskan, þú bjargar heiminum.“ Bros og koss. Greind og blíða er best, góð blanda, en nýlega hef ég séð að lítið verður úr ef þriðja kryddið vantar: töffaraskapinn. Eins og Guðbjörg langamma sagði með vestfirskum framburði: „Viljir þú eitthvað verda, verduru þig að herda!“ Nú er komið að því að þetta á við jörðu alla, verið er að reka líknagla í kistu fjölbreytileika tegundanna og Golfstraumur hótar að kikna.

Kristin er hugmyndasaga okkar. Sekt okkar. Lífheimur í háska og veður ónýt. Hver á að brýna okkur? Flestir ferðast án þess að greiða kolefnisskatt. Einhver verður að sýna tennur veröld til varnar. Ekki benda á mig sagði vaktstjórinn. Nú getur Hjalti farið að beita sér og ég líka og öll þessi alltof stóra beibí búm kynslóð. Koðnum ekki niður. Látum okkur að minnsta kosti ekki leiðast. Gleðilegan síðaaldur elsku Hjalti! Ættum við að ganga Jakobsveginn saman? Borga feitan kolefnisskatt auðvitað. Erum við ekki búin að gera nóg? Megum við fara að slaka og njóta? Alla vegana göngum við saman góðan veg, eins og við gerðum í samstarfi okkar … í óræðri eilífðinni. Takk fyrir allt, kæri vinur. Þú ert bara bestur. Þarf nokkuð að ræða það?


[1] Betra að hafa á ensku en frönsku, fyrir fjöldann. Ég hef þetta af Féssíðunni: Practical Existensialism.