Harmleikurinn um hann Eika bítil Þórunn Valdimarsdóttir 1967, (með hjálp Hjördísar Smith og Kristínar Sæunnar Guðbrandsdóttur)

ÞETTA  ER  HARMLEIKURINN

UM

HANN  EIKA  BÍTIL

Frumflutt á árshátíð gagnfræðadeildar Hlíðaskóla í Lídó 1967.

Leikstjóri Brynja Benediktsdóttir, uns Sigurður Karlsson tók við.

Persónur og leikendur:

Eiki bítill = Eiríkur Guðjónsson

Lára, kærasta hans = Þórunn Valdimarsdóttir

Bússi, vinur Eika = Þórólfur Halldórsson

Jóna, kærasta Bússa = Kristín Guðbrandsdóttir

  1. þerna = Sigrún Grendal Magnúsdóttir
  2. þerna = Guðný Gerður Gunnarsdóttir

Faðir Eika = Stefán Einarsson

Móðir Eika = Hjördís Smith

Leikurinn gerist í herbergi Eika bítils og er drasl um allt herbergið. Meðal annars eru bítlamyndir út um allt og tómar flöskur og sælgætisbréf og sígarettustubbar, grammifón og plötur um allt gólf. Sóffi á miðju gólfi.

Leikurinn hefst á því að Eiki og Lára sitja á sófanum.

Lára: áttu ekki sígarettu?

Eiki: Jú, jú. (Hann tekur upp pakka.

Lára: (Fær sér sígarettu, lætur upp í sig.) Á ég að éta hana?

Eiki: Hér er eldur. (Tekur upp kveikjara.) Æ, þessi er ónýtur. (Lætur hann í vasann. Tekur upp annan.) Hérna. Æi, skrambinn, þennan vantar bensín. (Tekur einn enn.) Jááá. Þessi er ókei. Þetta er Ronson kveikjari, kostaði slatta mar. (Það er bankað.) Æ, þetta er kerlingin, þessi sveskja. Feldu smókinn, beibí. Farðu undir sófa, þar finnur hún þig ekki.

Lára felur sig.

Mamma: Eiki minn! Eiríkur, ertu að læra, ljúfurinn?

Eiki: Já, mamma, ég er bara að hvíla mig milli lestranna.

Mamma kemur inn.

Mamma: Hvað! Ertu ekki búinn að búa um rúmið? En draslið hér inni hjá þér! Elskan, ég verð að taka til og búa um … æ! lakkið er ekki ennþá þurrt og svo þarf ég að fara í fótsnyrtingu og hárlagningu og og … æ, ég kalla bara á þernurnar.

Eiki: Nei, mamma. Þú mátt ekki trufla mig meira núna, ég er að lesa fyrir próf.

Mamma: Jú … það er satt, fyrirgefðu. Vonandi verðurðu hæstur. Bless, þá.

Hún fer. Lára kemur undan rúminu.

Lára: Æ. Rykið undir rúminu þínu! Hvað eru eiginlega margar vodka flöskur þarna undir hjá þér? Var partý í gærkvöldi, elskan?

Eiki: Nei, nei. Þetta eru allt gamlar flöskur … ég hef tekið svona eina og eina flösku úr vínskápnum hans pabba.

Lára: Veit pabbi þinn ekkert um þetta?

Eiki: Nei. Hann læsir skápnum og felur lyklana, en ég gerði gat á bakhliðina og næli mér í bokkur þá leiðina. Ég fer svo mikið bakvið þau að ég er með samviskubit. Mér finnst þetta svo leiðinlegt.

Lára: Já, það er nú satt, við látum einum of illa.

Eiki: Já, ég veit þa … þegar maður hugsar um þa …

Lára: Það er satt … við skulum ekki vera að hugsa um það, elskan, spilum plötur.

Eiki: Ég get ekki spilað nema eina, sem ég var að kaupa. Hinar eru allar spilaðar í gegn.

Lára: O. K. Spilaðu hana.

Eiki setur plötu á fóninn og þau byrja að dansa.

Eiki: Lára, ertu enn hrifinn af mér?

Lára: Auðvitað, elskan, því ertu að spyrja, þetta er augljós hlutur.

Eiki: Ég vissi það, ég sagði strákunum líka að ég hefði sjens í allar stelpur.

Lára: Við skulum nú sjá …

Bankað.

Eiki: Lætin í pakkinu. Afsakaðu, krúttið.

Eiki fer niður.

Lára: (hvíslar) Honum ferst að tala um pakk. Foreldrar hans eru óþolandi. Alltaf að tauta (hún hermir eftir móður Eika) Elskan, en sætur ástin, en fínt hjá þér, ertu ekki að læra, litli ljúfurinn? O, þau halda að hann sé eitthvert englabarn. Ég vona bara að það hafi ekki verið Bússi sem var að banka, ég bauð honum nefnilega í búðina í gær, bara til að stríða Jónu.

Tjaldið dregið fyrir

Þernur koma fram.

Þernur: Jú, reyndar, Bússi kom í heimsókn með vinkonu sína hana Jónu og nú skulum við heyra og sjá hvernig allir vinirnir leysa sín mál.

Þá frammi heyrðist hávær kliður

hann Bússi kom, því verr og miður.

Nú skulum við fá að heyra og sjá

er vinirnir fjórir fara á stjá.

Tjaldið dregið frá

Sama svið, herbergi Eika, Lára situr enn á sófanum. Jóna kemur inn.

Jóna: Gott að losna við þá, greyin, smá stund. Þeir skruppu út í sjoppu og ætla að splæsa sóda. Bússi kom með einn viskýpela sem hann náði í einhvers staðar.

Lára: Hæ, truntan þín. Jiii, hvað þú ert í halló peysu!

Jóna: Þér ferst nú, líttu á garmana þína!

Lára: (öskrar) Varstu að segja eitthvað! þú ómerkilega drusla! Ég er með Eika og get hent þér út ef ég vil!

Jóna: Iss, ég get tekið hann frá þér ef ég vil. Þú ert alltaf svo illa máluð og halló.

Lára: Oj, frekjan þín, stingur alltaf undan …

Jóna: Ég geri það sem mér sýnist, ég er þó með honum … oh, I hate you … Ich hasse dich … ég hata þig!

Bússi og Eiki koma inn.

Eiki: Gengur eitthvað á? Jóna, en smart … (hann blístrar)

Lára: En hvað það er gott að þú komst með plötur, Bússi krútt!

Bússi og Lára eru að laga fóninn.

Jóna: Nei! Hvað þú ert í geggjaðri peysu, Eiki!

Eiki: Finnst þér ekki! Heldurðu að ég gangi ekki í tískunni, krútt, ég keypti þessa peysu í Karnabæ, krútt.

Jóna: Það er annað en með hann Bússa þorskhaus. Ég hata hann núna fyrst að hún Lára náði honum. Veistu ekki að hún bauð honum í búðina í gær?

Eiki: Einmitt það, ég trúi því, þau passa vel saman, bæði jafn leiðinleg. Hvað segirðu um að vera með mér, krútt?

Jóna: All right, O. K., I love you …

Eiki: Jóna, krútt, komdu með mér niður að sækja kók.

Jóna: Já, elskan, ég meina Eiki.

Þau fara niður.

Lára: Gott að losna við þetta pakk. Oh, finnst þér hún Jóna ekki púkó, halló og leiðinleg? Berðu okkur saman, krútt!

Bússi: Þú ert sæmó …

Lára: Er ég bara … er ég ekki … jú, ég skil.

Bússi: Oh, ég er nú reyndar orðinn leiður á henni, alltaf í sömu fötunum og alltaf með sömu fimmaura brandarana.

Lára: Oh yes, baby, hún er lummó og leiðinleg. En það segja allir að þú sért bara með henni til að láta hana splæsa … af hverju ertu alltaf svona blankur?

Bússi: Heyrðu, góða, ég er ekkert blankur. Ég fékk í arf eina og hálfa milljón, af því að einu sinni fór ég með minni famelíu til frænda míns og þegar við komum þangað hljóp Karólína systir strax út og sagði að það væri fjósafýla þarna inni … þá hljóp ég upp í fangið á frænda og klappaði honum og sagði að hann væri eins og engillinn á myndinni heima, var ég ekki súper klár, Lára?

Lára: Jú, þú hefur alltaf verið klár.

Bússi: Er ég í ætt við hest?

Lára: Ex skjússme I don’t mean it …

Bússi: Viltu vera með mér? Lára, ég er svo hrifinn af þér!

Lára: Auðvitað. (Hún talar fram:) Til að spæla Jónu og þó hann sé halló vil ég hann úr því að hann fékk arfinn.

Dynkir heyrast einhvers staðar úr húsinu.

Bússi: Heyrirðu smellina!

Lára: Guð! Eiki og Jóna eru byrjuð saman!

Bússi: This is all right, baby … Lára. Við skulum láta sem við vitum ekkert.

Drjúg stund líður.

Jóna og Eiki koma inn.

Jóna: Spilum meiri plötur.

Bússi: Já.

Þau byrja að dansa.

Drjúg stund líður.

Pabbi Eika kemur inn.

Pabbi: (tautar) Unga fólkið nú á dögum! Í minni æsku hegðaði unga fólkið sér betur. En þau skrílslæti! Hárið á fólkinu! Músikin! (Hann hækkar róminn.) Krakkar þið eruð ekki nema fimmtán ára og hegðið ykkur eins og svín! Hvaða skríl ertu að draga inn til þín, sonur minn!

Eiki: Þetta eru nú bara gamlir vinir í heimsókn.

Pabbi: Þú, með stelpur hjá þér, fimmtán ára pollinn!

Eiki: Polli? Sagðirður polli? Ji, hvað þú ert gamaldags, ég lít nú út fyrir að vera miklu eldri en ég er. Ég er svo æðislega töff mar, geng alltaf í tískunni og hef þetta myndarlega hár. Veistu ekki að allar stelpur eru vitlausar í mér út af hárinu … og ég er líka í hljómsveit, hvað heldurðu eiginlega að ég sé … að ég sé … ha! Polli! Ég sem er svo kaldur að gera at í löggunni …

Pabbi: Ég þoli ekki við hérna … út! Skrílsfólk! Þið hafið eyðilagt son minn!

Hann rekur Bússa, Láru og Jónu út.

Pabbi: Þernur! Mamma! Klippið hárið af syni mínum! Heinsið til í þessari svínastíu … komið með almennileg föt á barnið!

Þernurnar koma inn með vaskafötu, taka niður myndirnar og hreinsa herbergið. Mamma Eika kemur með föt.

Pabbi: Já … komið með skærin. Þetta líkar mér!

Þau klippa Eika!

Eiki: (öskrar) Oj, ó! Fallega hárið mitt! Frekja! Æ! Hvað ætli krakkarnir segi! Ég verð eins og kúristi! Guð, það vill enginn stelpa vera með mér eftir þetta! Ég get ekki lifað þetta af! Fónninn minn! Plöturnar! Gítarinn! Bítlamyndirnar! Ó! Ó! Ó! Frekjur! ég drep ykkur öll! Ég verð eins og englabarn!

Pabbi: Við ætlum ekki að drepa þig, við ætlum bara að gera þig að fyrirmyndar barni.

Eiki: Æ, æ, uhu!

Pabbi: Svona, svona, vertu feginn, þá verður kannske maður úr þér!

Eiki: (öskrar og æpir) Svekjurnar ykkar! Ég strýk, ég drep mig! Ó, ég vildi að ég væri dauður!

Þerna 1: Nú er munur að sjá hann!

Þerna 2: Hann er ekki nálægt því eins ljótur núna, greyið.

Þau fara út.

Eiki: Þá er pakkið farið út … ég fyrirgef þetta aldrei! Sjá hvernig þau eru búin að fara með kompuna mína! Það var svo töffó hér inni. Þessar kerlingar og karlar … ég hata alla. Ég vildi ég væri dauður … átti ég ekki hníf hér einhvers staðar … ég get ekki litið framan í krakkana framar … Já, hérna er hnífurinn. Ætti ég að skera mig harakiri? Nei, ég þori því ekki. Hér er fata með vatni í. Ég drekki mér þar, já, þá geri ég það, það segja allir að það sé svo gott að drukkna. Þau sjá að ég er engin skræfa. Ég gæti ekki lifað svona með stutt hár. Ég geri það þá!

Hann drekkir sér í fötunni …. og hnígur örendur á gólfið.

Mamma: (bankar á hurðina) Eiki minn! Eiríkur, má ég koma inn? Ég fer bara inn. (kemur inn og sér Eika) Dattstu, elskan? (tekur í höndina á honum) Æ, æ, æ, hjálp! Hann er dauður! Hann er kaldur! (það líður yfir hana)

Pabbi: (kemur þjótandi inn) Hvað er að … Guð hjálpi mér! (kemur við Eika) Dáinn, dáinn! (það líður yfir hann)

Þernurnar: (koma inn) Sérðu!

Þær sjá Eika dáinn og sjá að liðið hefur yfir hjónin.

Þær skvetta úr fötunni á þau.

Hjónin setjast upp en svo líður aftur yfir þau.

Þá steinlíður yfir þær.

Tjaldið fellur