Dagur kvennanna

MEGAS ERLU
ÞÓRUNN VALDIMARS

DAGUR KVENNANNA – ástarsaga

nóvella í fjórum hlutum

1

Það er bara dagur í haustkvosinni, sem á sér einskis ills von. Í blænum er mildur manna¬þefur, og blíða en ekki stríða í and¬blænum. Eins og lög gera ráð fyrir er dagur¬inn mann¬aður góðu hlutfalli bordýra og skor¬dýra, karla og kvenna. Þeir strjálu punktar eru barðir úraugum beitsæk¬inna risaeðlu¬niðja í oddaflugi, harmstola gæsa og gassa sem fljúga í gleði lítilla heila milli Vatns¬mýrar og eyjanna á sundunum. Þær fljúga yfir Lækjargötu og Lækjartorg því þær finna til milljón ára sögu sinnar og yfirburða er þær sjá þreytuleg gotdýr og skotdýr potast sína hvers¬dagslegu þrældómsleið, sjá tvístruð raufdýr sem skauf¬dýr hreyfast löduhægt um torgið sitt, berandi flest sinn harm.
En út úr Moggahöllinni gengur Clint Himinhrjóður East¬wood þó sinn keika vanagang og kinkar graðlega kolli til hverrar vanadísu er á vegi hans verður. Sér hann eina hnátu og hugsar til þeirrar hverrar sköp hann fyrir skemmstu smó, blaut og freyð¬andi. Þau brosast á, því nóttin lifir í limi og löð. Alsæla ríkir í edenslundi kvosar¬innar, ormi firrtum.
Karl nokkur gengur undir Suðurgötuhlyninn með nýja regnhlíf óspennta sem vísar honum leið. Bankar gnæfa til himins og ögra þunnri himinskelinni, sem lætur sér fátt um finnast.
Í Pósthússtræti er Þrídís nokkur á þönum, sein fyrir að vanda, með allt heimafyrir, þótt eðli hennar stefni hátt. Henni nægja ekki æðstu lyklavöld að koppum og kirnum, landareignin sem hún ríkir yfir hefur minnkað svo og ruglast. Sauðféð er komið í banka og heimtur engar. Kýrnar orðnar þrí¬hyrndar blindar og heyrnarlausar, svo þyrnar vaxa á spenunum. Hún ríkir yfir engu, aðrir troða vitleysu í börn og bónda. Brátt sér í botn á henni sí¬minnkandi út við sjóndeildar¬hringinn. Henni finnst hún orðin útvegalaus, með sinn volduga kríkafans og kríka allra kríka.
Við tröppur Útvegsbankans þrýstist stein¬maður úr vegg. Veggurinn andar honum stöðugt út úr breiðri bringu sinni. Þennan dag sem alla daga. Hann er bústinn, þrýstinn og ýtinn. Með hug¬lægri aðstoð pilsklæddrar Persilgyðjunnar í klukkunni rúnkar hann sér stöðugt og skaffar heiminum fé. Hún er föst í tímanum og kemur aldrei, en hann brundar á heilum og hálfum. Hann elur þann ugg í hjarta að kona muni að lokum soga hann upp í svelg móðurlífsins. Því skirrist hann konur þrátt fyrir sína heiðu önn. Konur eru honum ógn, nema Persil. Í ímyndun hans stefna konur að honum ógnvænlegum ryksugusköpum og heita Freyja.
Skyndilega vaknar grunur um þef. Hvorki brugglykt né bræðslu. Dulrænn forsmekkur af ógn. Ekkert óvænt sést, finnst, heyrist, lengi vel, vagnar renna og bílar brenna. Þá ber fleiri oddfleygar gæsir við grábláan himin, á leið úr Vatnsmýrarmorgunandakt í Engeyjarhádegiskropp.
„Sérðu!“ segir ein við aðra. „Engar konur lengur á torginu, engar gotverur, bara potverur.“ Þær hlægja allar svo hið fram¬sækna alkynja vaff sveigist til, gassalega. Glaðbeitt úraugun lemjast út á haf. Hin eðalbornu eðlubörn bora grashafið augnsteinum, hafa fyrir löngu bitið skömm¬ina úr eyjunni.
Kemur þá þefur. Kemur þefur skríðandi niður í kvos. Hann er eðlisþungur og leggst í lágir. Í þessum þef sammeyjast allar lyktir hins kvenlega íslenska þefrófs. Þar býr daunn og ilmur úr marglitu hárbáli, sem andar efst á óþekktu dýrinu sem nálgast mörgþúsund fótum. Þefur úr augum. Þefur af kinnum. Þefur úr eyrum og munnum. Stækur þefur úr hálskríkum. Axlaþefur og handarkríka¬lykt, mild og stæk úr loðnum sem hárlausum kríkum. Þar fara rakaðir kríkar, ósprottnir kríkar og visnir kríkar, baðaðir kríkar, lykteyddir kríkar, nagaðir kríkar. Og þar við blandast upp¬handleggjalykt, olnbogalykt, olnbogabótar¬lykt, framhand¬leggjalykt, handarbakslykt og lófalykt. Ilmur fingra ýmsrar iðju. Þefur af baki. Þefur af ofan¬verðum bringum. Lykt af brjóst¬um, lykt af hugmynd¬um um brjóst, lykt af mjólk, geir¬vörtulykt, krabbameins¬lykt, löngunarlykt, lífsþorstalykt, blómalykt, framsækin elskandi sómalykt. Magalykt. Naflalykt úr djúpum merg. Skap¬andi, eggjandi og geggjandi píkulykt úr mörg þúsund mismunandi píkum og píkuhlutum. Uppkuntu og niður¬kuntulykt. Stöku túrlykt. Rassalykt og innan¬læralykt, leggja¬lykt, knjáalykt, kálfalykt, öklalykt og fótlykt ýmissa skrefa. Innkirtla og útkirtlalykt, reiðilykt, sælulykt, ástarlykt, umhyggjulykt, hvíldarlykt, meltingar¬lykt, kyn¬lykt, rólykt, geðveikislykt, niðurlægingarlykt, ambáttarlykt, uppreisnarlykt, mikilmennsku¬lykt, minnimáttar¬lykt. Vinalykt og óvinalykt. Barnalykt og ellilykt, virðuleikalykt fölsk og sönn og skammarlykt. Fáfengislykt og sæðislykt. Fjarlæg angan af bílstjóra erlendrar kven¬popp¬stjörnu. Klórlykt, sápulykt, uppþvotta¬lykt, kaffilykt, sígarettulykt, áfengisþefur. Ilmvatnslyktir af öllum gerðum. Sá sam¬einaði kvennaþefur seig á kvenna¬degi Samein¬uðuþjóðanna niður í kvosina, sem beið þar illa karl¬mönnuð og vanbúin að taka slíku höggi. Í sameinaðri lykt þúsunda kvenna býr krafan um endurheimt vegsemdar. Vegsemd, völd og vegsemd, dýrðar vegsemd. Hin náttúrulega krafa um endurreisn sjálfrar náttúr¬unnar.
Þessi lyktvæð¬ing kvosarinnar hafði áhrif svo sem hér greinir. Þegar Dagur kallaður Himinhrjóður af afa sínum – Clint Eastwood look alike að margra áliti – mætti ysta jaðri þefsins brá honum svo að hin stinna sígaretta lafði eðli sínu ótrú sem eitt slytti. Af honum sjálfum hurfu sem hendi væri veifað öll karlmennsku¬merki, reisn og rosti.
Regnhlíf sú sem dró eiganda sinn nauðugan viljugan Suðurgötu niður í kvos, vegna döngunar sinnar og löngunar til að bora sér leið inn í kvenlegan kvið, bognar og beygir af sem hann nálgast Lækjartorg. Reginkraftur þefsins sem og þefveggjarins þéttleiki er svo ógurlegur að hún bognar. Karlinn hringsnýst í vegvillu sinni.
Þefmassinn fyllir kvosina óheyrilega vanandi tónlist, svo haustangar á Austurvelli til þjónustu reiðubúnir smjúga ofan í jörðina aftur, og vefjast um rætur sínar með lafandi skott. Hug¬myndin um Alþingishúsið jafnast við jörðu. Aldrei munu þeir upplíta á ný.
Steinmaðurinn sem strokkar í alsælu blóðbólginn lim sinn, liggjandi lóðréttann upp með kviðnum, hefur hann lauslega í greip sér. Skyndilega er hann umlukin þef og verður svo við að snögglega er greip hans tóm. Limurinn lekur ekki aðeins niður í krikann sinn undir kvið, læra milli, heldur er horfinn og aldrei síðan sénn.
Klukkukólfur dómkirkjunnar slær ólmur mikinn skapa¬dóm. Hundrað þúsund ára skapaþefur aldanna hefur ruðst úr hömlu, dalirnir hafa risið að jafna fjöllin við jörðu. Persil skynjar hinn þoku¬kynjaða þefhjúp, hefur ei lengur tíma að telja, vísarnir vísa ekki lengur. Kólfur slær koparinn hinsta höggi og lekur úr legi sínu, Persilgyðjan losnar úr álögum og deplar auga.
En í þann mund sem þefurinn fyllir út í kvosarholur koma augun – fjörtíu þúsund skimandi og óþægðarfull augu horfa af kvosarbörmum í átt til torgsins. Fjörtíu þúsund fætur þramma niður brekkurnar og jafnmörg brjóst leika undir. Tuttugu þúsund ilmandi kóral¬bleik eðalsköp horfa til malbikaðrar móðurjarðar, sjáandi gegnum holt og hæðir. Sogin og smogin, lífs og lima. Eyru steinmannsins nema soghljóð tuttuguþúsundfalds svelgjar. Hann lítur upp og augum hans mæta aðvífandi ginnungagöp. Hann tekur til fótanna og flýr út Kalkofnsveg, heldur strandleið dagfari og náttfari og biðst hælis á Kleppi sem erótískur flótta¬maður þegar hann má mæla, en kynbróðir hans Clint Himinhrjóður gengur nær, sér sitt óvænna, rifar og lægir seglin.
Tuttugu þúsund konur fylla torgið og skjóta rótum. Ræturnar sveipast saman í iðrum og mynda eina ofurrót. Torgið lifnar í kvenleika og er sem eitt dýr væri og á baki þess dansar Persilgyðjan tímalausan dans, hefur troðið afmögnuðum tímanum inn og upp í sig. Fellir föt með arabískum þokka í slæðudansi við bumbuslátt og bjöllu¬hljóm.
Himinhrjóður gerir sig agnarlítinn og heldur heimulega á kvenhafið, smýgur í smæð sinni milli voldugra eika. Verður það honum til lífs að öldurnar vinna ekki á slíkri örveru. Hann gengur í storminn, þéttum skrefum stikar hann í gegn. Engin erótísk blik verma karlmennsku hans. Afkynjaðar og ofurkynjaðar mæna þær á hann nýju ráði svo hann er rúinn reisn. Málmhörð brjóst stingast í hann, hárbeittar geirvörtur, hann sér sér ekki annað vænna en festa hugann við Dísu ljósálf, verður hún, og læðist ofurmjúklega um myrkviðinn. Fjandskapurinn hrynur því af honum og leggst í flögum við fætur hans og varðar leiðina. Sér hann á leið sinni karl, eða er það missýn? Hann er sköll¬óttur í frakka með regnhlíf milli fóta, og á honum sívax¬andi brjóst. Himinhrjóði bregður illa við þessa sýn, skelfist og óttast um sinn ham, og hraðar því för sinni. Hann stefnir yfir Arnarhólstún, rennur í Lindina og kaupir hestburð af áfengi: Tequila, Romm, Pernód og Campari, og hefur í þakherbergi sínu við Hafnarstræti uppi djarfar áætlanir um að gerast kaþólskur og flytja til Suðurlanda. Bregðast nú jafnvel bestu píkur, hugsar hann, bregðast nú jafnvel bestu limir. Bregst allt nema áfengið. Hann uggir hann aldrei muni aftur geta. Þegar engin er Lísa munu limir ei rísa.
Á torginu iðar dýrið í stormbylgju gjallarhorns. Risa¬vaxnar landlausar meydrottningar í munúðar og munaðar¬lausum helgidómi sínum strá heift sinni sem herhvöt yfir frjóan akurinn. Sköpin fá nýja sýn sauðamannslausra skessna. Aldagamall skortur á kynferðislegri áreitni á vinnustað veldur heilagri reiði. Öskubuska er heima, en systur hennar sverjast í fóstsystralag, heita eilífri tryggð og váljós skína. Þær hafa uppi ráð um að koma Ösku¬busku í dómarasætið, afklæða hana skrauti og setja hana í afkynjandi föt. Gera henni að banda þeim frá er þeir koma vongraðir að vanda. Hún skal hafna þeim og hefna svo fyrir systur sínar, en bera sjálf kostnaðinn af hefnd¬inni með ófullnægju. Leynt í hugar¬skoti ala þær draum um að þegar Öskubuska verði uppþornuð, skrautlaus og svekkt, þá flýi sauðamenn til systra, bljúgir og stinnir, og beiðist ásjár fyrir limi sína lang¬þyrsta.
Þær lofa eiginmönnum friði og öryggi í eldhúsinu og þvottahúsinu, fái þær sjálfar að hórast úti í bæ í æðstu embættum og ráðskast með örlög limanna. Þær bjóða að sólir ilmandi barnsrassa skíni á kransæðastíflaða forkólfa viðskiptalífsins og hádegisfundafíkla. Þær heita kynköldum mökum í framlínu athafnalífsins fullum afnotum af sonum og dætrum, pottum og pönnum. Troðið tilveru yðar í þessi eðalílát og finnið yður þar sem ljós og mildur barnskúk¬urinn liðast um blæjur. Þar er mátturinn, dýrðin, valdið, virðingin hæsta og réttlætið. Þið farið innvegi, við förum útvegi, mál er að miðla. Mál er að mala sinn maka oní bala, við viljum gala með gríðarlegan hala!
Á torginu er hátíð og veisla þar sem öll augu upp ljúkast, öll hjörtu galopnast og öll vín flóa. Fegurðin stæk í nösum svo nístir augu og sker. Hún stígur til himins, safnast í massa, grætir eðluarfa sem þar fljúga, hnígur þá aftur niður og fergir dýrið svo hamingjurnar pressast út og rísa sem lukkuregn. Heilagur andi svikinnar gyðjunnar rís til að kenna körlum legsíu. Leikarar bleikir þenja stríða hvofta og baula: „fram, fram systur, steypum okkur hættu í, valdræningjar oss vilja taka í, afstýrum því því.“ Helgukór syngur: „lemjum limi, stífum stauta, geldum gaura, skautið blauta, gala gala, vala vala, gald gald, vald vald!“ Dýrið finnur mátt sinn.
Hin helga upplausn smýgur í hið fullnægða torgdýr í hyldýpis hámarki, speglast í hvolfinu sem við það brotnar í tuttugu þúsund glóandi glermola. Stóri munnurinn þagnar og litlu munnarnir opnast, þeir vakna og finna til fóta sinna. Frumeindirnar renna burt í taumum, straumurinn stefnir úr kvos heim í hulstur, slangan liðast sem lækur hlýði hugsun sinni. Eðalfrumurnar vella boðleið seigfljótandi í systra legum sælu¬marsi með Pan hinum óséða inn Austurstræti, Pósthú¬stræti, stefna á Alþingi en beygja þá af leið í bili og svelgja Hótel Borg.
Kristalskrúnur klingja og syngja, titra og glitra megin¬mögn. Í útlegð úr gullnum sal eru þær óverðugu systur sem dreymdu sig undir dáta, svo Persilju bregður í brá. Af er yndisþokki, þær runnu allar á hálu Hollywoodsvelli og urðu hrörnun að tímabærri bráð. Gúrkumaskar skulu nú af lagðir og heilbrigðisþróttur ljótleikans settur á stall. Ræður hljóma yfir borðum, stigið er á stokk og steina og strengd heit. Heit andvörp systralagsins fylla salinn, og nema má orð úr andardráttum, apinn er glapinn, prestur¬inn brestur, biskupinn lestur, páfinn klesstur, notum þá karla, brúður er trúður, gurglar í sköpum, nú skal allt fullt af kvenöpum á snöpum.
Lævís en ákaflega áleitinn grunur læðist að hæglátum ameríku¬manni er gengur að barnum. Hann finnur í salnum sama blæ og á nornafundum forðum og samkomum Ku klux klan, þegar hann var í vettvangskönnun hjá Cia.
„Þessum truntum mun illa takast að trylla til sín fylli úr tundurspilli,“ hugsar hann á amerísku.
Nærstaddur rússneskur skák¬meistari og elítulimur hugsar það sama á rússnesku. Hugsanir þeirra horfast í augu og rússinn segir á bögglaðri ensku:
„Það mælti Spassky að mér mundi finnast meyjar fagrar á fróni því kalda, en eigi líst mér og mínum limi dyrgjur þessar dugi neinum!“
Kaninn kímir.
„Nast¬oro¬vía“, segir rússinn við Íslending sem líður í þessum svifum út úr MiðnæturEsju¬fuglamálverkinu innst á barnum.
„Nastí¬pía“, segir sá drykkfelldi ævintýra¬maður af lands¬byggð¬inni sem þykist vera erlendur fram¬kvæmd¬astjóri úr kvið¬mynda¬iðnaðinum þegar hann talar til stúlkur¬nar. Hann örvæntir innan um illfiskið, og kemur ei heim og saman eðlismöskv¬astærð. Íslendingurinn bætir við á verri ensku:
„Í þeim rontufans mun fátt um fínan dans, ég dríf mig því til lands og fell í djúpan trans, nú dansar Vala Óla skans.“ Þannig útskýrði hann táknleik kvennanna sem tóku upphaf kvennaárs Sameinuðuþjóðanna svo hátíð¬lega. Þremenningar¬nir skelfast mjög framvinduna og fyllast óhugsun þeirri að meginlöndin kyngreinist endanlega og hundruð milljóna píkna meinlokist í Vestur- og Austur¬heimi utan um valdþyrstan ásetning sinn.
Borðhöldin eru í algleymingi. Kaffimóðan ummyndast hægt og svo snögglega í áfengismóðu. Umhverfis hring¬borð nokkurt sitja erkibreddur og -bryðjur dagsins, og um æðar þeirra fer stálhrísla ásetningsins. Þær hafa sett dag allra daga á og slengt í stál, vita að þetta er búið að gera í Svíþjóð. Máney næturdrottning sem vensluð er í miðjan bredduhópinn situr hjá í öfundaðri fegurð sinni, og sem stálin stinnast kólnar hún dýpra og dýpra og dýpra.
„Hvað gerir þú“, segir yfirbreddan, og bætir við í huganum „þú aumingjalega og viljalausa, snoppufríða, ofurskreytta glenna, með fimmtu herdeildina í leggöng¬unum!“
„Ég hvíli sólina“, segir Máney öskubuska.
„Ósvífni, ógeð, viðurstyggð,“ æpa venslakonur hennar í kór, „þú átt sjálf að vera sól, láta ljós þitt skína! Sjáðu okkur, þú gætir vel orðið við! Afneitaðu óvininum. Þurrkaðu af þér græna varalitinn og beislaðu girndina, hún er ógeðsleg. Hugsaðu um formæður þínar, í óæðri gröfum, umkringdar kúgurunum og kúgunartólum þeirra.“
Máney hugsar um hina undurlukkuðu ömmu sína og skilur ekki hvað gáfu¬konurnar ljótu og herptu eru að fara. Þær sjá á henni aulasvipinn og fyllast heift og vandlæt¬ingu. Sú sárljótasta segir.
„Þú fellur í þá grimmu gildru að láta girndaraugu karlanna gleðja þig og sköp þín, sem ein hóra, og veltir þér sem kótilettu upp úr fegurðinni í spegli þeirra. Hvað hefurðu lært?“
„Að slíðra sverðin …“
„Oj, oj, oj!“
„Og beygja turna með blíðu minni. Viðkvæmir himnar og sviðin jörðin þakka mér,“ segir Máney.
„Viðbjóður og missýnir, Þú ættir að blygðast þín fyrir óra þína hórudrusla og fara í félagsfræði. Þá nærðu kvenlegri raunsýn og sérð hve sárt við erum leiknar.“
Máney þegir og kólnar meir og meir, dagar síðustu vikna slokkna í henni, svo stór reynist þessi dagur þótt hann í raun sé rétt að hefjast. Illskan sækir að henni úr augna¬gotum nærliggjandi borða, svo næmur er reiður frelsisher á trúvilluna, vanþóknunin vellur þar úr öllum líkamsopum. Hún stendur upp og sverðin skera hana á hol, hún hefur sett vel löguðu ballettlimina sína í erma¬lausa, flegna Hawaí¬blússu og allt of stutt pils. Frostið læðist um bak hennar og brjóst, innar og innar. Með lítil Grýlukerti á geirvörtum gengur hún á barinn svo marrar í líkamanum í hverju skrefi.
Við barinn standa áður umgetin þremenni af ýmsu þjóðerni og óumræðilegum uppruna. Máney finnur hvernig augnaráðríki þeirra bræðra bræðir yfirborð hinna djúpfrosnu dýrðarbrjósta, geirvörtur tárast ögn, en geislabaugar mýkjast henni til hrellingar, því hún finnur oddhvassa augnasteina systra sinna því beittari í bakinu. Leggur því í langferð á karllausan barinn hinu megin í húsinu að sækja sér al¬gleymissafa, því hugurinn er sár og sviðinn af rafsuðu ofbirtu systra¬lagsins.

2

Í þakherbergi við Hafnarstræti kveður við öfugan ótón. Í óuppbúnu rúmi situr Himinhrjóður Klint með dauðamöl fyrir loðnu brjósti, hefur lokið úr Tequilaflösku sinni, Romm¬flösku sinni og Pernódflösku sinni, á eftir Camparí¬flösku sína. Geymdi passíulitinn þar til síðast, hefur drykklengi notið þess að bera Camparíflöskuna upp að augum sér og horfa á leikara¬plakötin í gegn, sjá rauðakvöl flæða inn í plakötin og afmynda Don Síkáta og hina guðina. Mynd¬irnar af honum og vinkonum hans í kvikmynda¬heim¬inum hanga bæði í súð og á veggj¬um, hingað til notalegir speglar. En nú ber hann ekki kennsl á sig, á þó lífið að leysa.
Þeir feðgarnir vita ekki betur en þeir hafi alltaf farið vel með móður sína, ömmur og kærustur. Stoltur af sínu stóðhestseðli, ávallt til þjónustu reiðu¬búninn svo sem flestar mættu njóta hefur hann hingað til ekki bundist. Frek hugsun kemur sem óboðið leiftur, nagandi skáskítur.
„Eigi hefur þú belgjað börn, né barnað belgi.“
Hann fær sér hafsjó af Camparí, sem skolar ei hinni skjálgu hugsun burt.
„Ekki hefur þú kveikt börn í belgjum og gert bleika belgi bólgna!“ Hann fóstrar munaðar¬lausan gauksungaugg í brjósti, að jörð sé ei grýtt en sæðið ónýtt. Hann hefur það í eðli sínu að beygja af er hann mætir ásökunum akurdýra og fara afsíðis. Finna sér nýja sem er ánægð með hann, og það sem hann hefur að gefa. Allar vilja þær neglast. Það heldur manni frískum. Aldrei hefur hann orðið fyrir því að konum litist ekki á hann, en konurnar á torginu krossfestu hann ásakandi augum, grýttu úr honum allan mátt og dug, ásökuðu HANN fyrir eðli kynjanna. Ásökuðu HANN fyrir árþúsunda hefð, í lognu umboði, ásökuðu HANN fyrir það sem náttúran hefur krafist að karlar og konur gerðu til að uppfylla jörðina mönnum og halda tilraun hennar gang¬andi. Á leiðinni gegnum svipu¬leggöngin dundu á honum orð full af eitruðum sannleika sem náttúran sem slík átti skilið að heyra en ekki HANN, orð sem búa yfir móteitri gegn karlmennsku allra tíma séu þau tekin persónulega. Löngum hafa sakfáir grýttir verið. Grýtiði hana herrann kvað, þeir hikuðu við að gjöra það en heimur versnandi fer og er gjörsamlega kominn úr klassískum öryggis skorðum.
Það reynist erfitt að komast úr gerfinu sem barg sálarlífi hans í þvögunni, gerfi Dísu ljósálfs. Er ekki tími frjálsra ásta upp runninn, hin pillaða frjálsa ástartíð? Vilja þessar djöfuls breddur taka af honum vinnuna í Mogga¬höllinni? Hann reynir að finna afleggjarann til sjálfs sín. Hvað segir sú aldagamla skipan sé ekki góð? Fagrar, ljúfar konur hafa ekki þurft að kvarta, né vaskir menn! Það eru skessurnar og tittirnir, sem mátt hafa kvarta. Hrossataðskögglar¬nir segjast nú epli, éttu mig eða sveltu! Og hvert getur náttúran leitt okkur ef ókvenleiki og ókarl¬leiki taka völd? Hann hugsar um getnaðarvarnirnar, því séu konur lausar. Hann afber ekki að hugsa lengi um pilluna miklu, atómpill¬una miklu sem eyðir öllu, hinn ófrjói sveppur rís upp og spryngur í áfengisórunum og leiðir hugann aftur til þess að sæði hans sé hugsanlega fordæmt af guði Ísraelsmanna. Hann sé annars flokks lífvera og í komandi jarðlífssælu milljón ára, lukkist að leiða iðnbylt¬inguna farsællega til enda, yrði mannlíf sem ætti ekkert í sér af hans góðu gena¬lyklum. Ef hann ætti tólf börn gætu þau lukkast svo vel í stigveldi lógaritmans að hann ætti stóran hlut í sigursælum geimmönnum eftir þúsund ár sem legðu undir sig í margföldum sólaljóma sólkerfin. Að vera eftirsótt¬asti karl hins eðla íslenska kynstofns, sem hertur hefur verið hungureldi og ís þúsund ára, er að vera ein eðla mannvera.
„Et tu Brute,“ hugsar hann nú þegar tóm gefst til. Hann sér andlit allra sinna kvenna í þvögunni, sem áður ljómuðu af aðdáun og ást. Hatur og fyrirlitning reisa ekki turna.
„Hér liggjum við Klint, með tippið lint.“ Án turna næst engin yfirsýn. Alpafjöllin síga stöðugt, menn verða að byggja turna, ást reisir eldfjöll gegn útflatningaraflinu.
„Af hverju halda þær að við séum loðnari?“ hugsar hann enn og klökknar.
Hinn suðurameríski kjarnadrykkur hefur togað fram úr ásjónu hans úlfsaugu og nef. Hið stóra stinna úlfsnef með svartan kóng minnir á lánleysið sem blasir við í neðra. Úlfsaugun toga tunglið fyrir gluggann og tunglið úlfseðlið sem eirir hvergi. Varúð, úlfúð, tungl í skýfötum, úlfur í rúmfötum, festast og fljóta, tungl togar hár fram úr húð. Varúlfúð undir súð, loðin húð, yfir búð.

Mærin Máney stendur við innri barinn þar sem engir eru karlmenn að erta líkama hennar með brennandi geislum brásóla sinna. En fjandskapur og kuldi umvefja hana og ófríðu konurnar herptar af aldagamalli óblíðu nísta hana þó frostpinnum í merg og bein. Þeim hefur ekki hug¬kvæmst að aka vörubíl né fella saman hamingjuhugi innbyrðis og kyn¬byrðis. Nú er illa fjarri styrktar¬pinninn vermandi góði. Konurnar breytast í dimman dáskóg kræklóttra trjáa sem aftur breytast í kvenverur sem teygja umhyggju og umvönd¬unarkrumlur í átt til Máneyjar, þar sem hún vandræðast með glasið sitt fullt af fjólubláu víni sem hún hefur keypt af þurrkuntulegri þjónustu á barnum, ærið karlmannlegri. Máney hrekst undan teygðum timburloppum laufsnauðra kalviða. Illsku¬fullar ásjónur, með dimmglóð í tóftum, hvolfast yfir hana, tungur teygja sig í átt til hennar með óheyrilegar vonskur á broddinum, svo hún hrekst inn í sal. Þar er gul og græn gjörningaþoka þéttrar illsku þornaðra kven¬kirtla og ljótlegleika. Fjúk og fáryrði fara í ómbylg¬um um þokuna.
Máney gerir sér til styrktar vörutalningu á kvenfrelsis¬hugmyndum dagsins, og sækir ítarefni í torg- og borg¬ræður vígkvenda sem hafa höfuð í hjartastað. Þessar hugsanir hennar finna sér illskufullt bergmál í þokunni. Hún finnur sér farveg í hugsun sem rennur sem rússibani og fyllist hatri á ¬krumlu föðurins á barns¬rassi sínum gefandi grimmilegar þjófíkjur. Skyldan og óttinn, burt með það duumvirat, eins og móðurafi hennar var vanur að segja. Föður¬skautið stranga rífi ei lengur eyrnasnepla. Við blasi frjálsfagurt fram¬tíðarland. Fjólu¬blámi vínsins gerir þá skyndilega hallar¬byltingu í haus¬kúpuhelli litlu drekamóður¬innar. En ef ljótar konur sæðast innbyrðis verður mann¬kindin svo ljót! Feitar jússur á flatbotna sandölum með frek og véluppalin börn, er það framtíðar¬landið hans frjálsgóða afa, sem fegraði líf sitt klámfilmum? Hvað með allt náttúru¬kontról, sjálfvirka milljón ára gamla sam¬keppnis¬úrvalið til eðal¬eldis? Rándýrir grað¬hestar og hryssur njóta greðu sinnar gulli slegin á verðlaunapöllum, til að fegra og fullkomna hið íslenska hrossakyn. Vöru¬talningin hefur riðlast og Máney efast en óttast hugsun sína, hún eyðist ekki og eðli svo bannaðrar hugsunar verður numið við næsta borð.
“Reisum hörkubúðir,” glymur úr gjallarhorni.
„Komum á hinu náttúrulega sköpulagi apaskógarins. Staðreyndir frumskógarins sýna hvað við höfum villst langt af leið. Alfa¬apar, sem apynjurnar velja, sinna öllum apynjum þegar hitinn kemur yfir þær. Þær stjórna. Betaaparnir arg¬riðlast saman milli trjágreina í félögum, sem þekktir kvenna¬fræðingar í útlöndum hafa tekið að bera saman við karlaklíkur nútímans, rótarí og dótarí, meðan kvenaparnir sinna ungum sínum þau fjögur ár sem þeir eru ósjálfbjarga. Það var mesta heimsins ólán er körlum efldust vöðvar og þeir tóku að ímynda sér að þeir gætu valið sér konur. Og hinir örgu undirmálskarlapar bjuggu til hið óhuggulega fyrirbæri fegurðarsmekk, þegar nefið segir dýrinu það sem segja þarf. Nefist og efist ei, við erum sterkar, vellyktandi og með bílpróf.“
„Við erum manndýr en ekki apdýr,“ andæfir Máney inni í sér. „Þetta með að bestu karlaparnir sinntu öllum apynjum gilti meðan tegundin var í aðsteðjandi útrýmingar¬hættu, síðan höfum við sett markið hátt og fágað stofninn. Marilyn hin alnæma Monroe og Charles hinn kynvísi himinberi Atlas, við setjum markið ekki hárbreidd frá þeim, við erum á leiðinni þangað! Með happa¬legum náttúruglöpp¬um á stæltum og mjúkum karl- og kven¬löppum. En eigi skal örvænta forljót og örljótur, með réttum handbók¬um og æfinga¬prógrömum geta allir höndlað hafsjó hamingj¬unnar og synt og syndgað með öllu út um allt. Guð gerði alla apa glaða! Við afi höfum annan og betri háttinn á. Við aflýsum þeim fornvestræna persónulega heim¬sendi með nýju lagi. Heyriði ei hljóminn hvella í heitum hveri? Nei þið heyrið ei. Grybbist þið grybbur í fjarveru minni, hvar eru hinar eilífu hring¬dyr?“
Holl¬enskt hugrekki hins fjólubláa víns, víðsýni sæfar¬enda og verslunarmanna sem áttu vinskipti við alvísar nýgín¬ískar mannætur vold¬ugra potta, streymir sem nátt¬úru¬fljót dýpstu skynsemi og hvíslar að kirtlunum hvert stefna skuli. Tilhneigingin djúpa leiðréttir æ að lokum kúrsinn. „Lifi þær gerfisælar sínu vörubíllífi,“ segir hún og kýlir á hringdyrnar.

Tunglum fjölgar undir vissum Hafnarstrætiskvisti. Þau svífa í hugskoti Himinhrjóðs. Hann hefur skaðbrennt sig á eigin áfengisórum í örlagahring sinnar sólar, úlfurinn hefur gleypt sólina, ofhitnað, er slappur og þægur og þarf sárlega svölun og kælingu. Í hverju hans hugtungli býr syngj¬andi hugboð um vellíðan sem ekki er á staðn¬um. Fullt er af tunglum sem draga hann út slippan, og draga hann út. Mjög brakar í timburstiga þegar ör¬þreyttar klær krafsa í viðinn á eirðarlausri niður¬leið. Tunglið sem götunnar gætir kemst við í hæðum, er það geislar augum hið tuskulega goð úlfhamt í einsemd¬inni. „Forðum, áður en ég varð kristinn máni, var ég kælingar og hvíldarstaður útbrunninna goða, sem úr mér spruttu endurnærð. Þá hrósuðu happi þær orlofsbúðalokur. Ég tók þá alla og hvomaði í mig, öllu til óendanlegrar lukku.“
Svo mælti hinn lífsreyndi Hafnarstrætismáni og elti geislum fallna sólfætur sem þeir þvældust inn Pósthúss¬stræti.
Hin grimmgóða tilviljun leiðir Himinhrjóð sak¬lausan að Hótel Borg. Framan við hringdyrnar er froskur nokkur í einkennis¬klæðum eðaldyravarðar af römmustu gerð, sem bandar honum burt. Himinhrjóður veit ekki betur en hann sé sem alltaf glæsilegur og vel klæddur og skæddur tvíburabróðir kvik¬mynda¬stjörnu.
„Hér er kvennafundur,“ segir froskurinn svo Himin¬hrjóður hörfar skelfd¬ur burt, en kemur hann þá ekki auga á konu eina sem föst er í grimmu hringferli hinna hrað¬skreiðu hóteldyra. „Af hverju hjálpar þú ekki þessari konu úr vítahring hurðarfársins, félagi froskur?“
„Ég er að þeyta hana út á kokteilávexti úr kúbanskri dós, mér var sagt ég mætti eiga ótímabæra útferðalanga. Ertu með stúdentspróf?“
„Tröll hafi þig og þínar dósir, þú afstyrmi afstyrmanna, sérðu ekki að þessi viðkvæma kona er sjálf næturdrottn¬ingin, þursurnar inni hafa rænt hana kórónunni, sem þær þó með engu móti geta nýtt sér. Læturðu þær forynjur upp¬hefjandi viðrini stýra þér, þú armi ófaglærði froskur, spyrjandi aðra um stúdentspróf“. Í því bregður hann stæltum fagur¬smíð¬uðum fæti sínum fyrir mjóslímug frosk¬lærin, kippir ve¬sölum einkenniskroppi á flug veif¬andi hendi og varpar honum léttilega í boga svo hann að lokum hafnar þar sem hann á heima, í ysta frostbeði Austar¬vallar minnst fjörtíu árum fyrr í þjónustu dótturdóttur land¬fógeta. Er hann nú úr sögu þessari.
Að frosknum fljúganda stöðvast hringdyrnar og skyndi¬lega horfast í fjögur augu þau Himinhrjóður og Máney. Dýrið í henni, genabankinn og stéttvísin gefa á örskot¬stundu stærsta samþykki svo hún velur þennan apa og kallar innvortis hástöfum á hann. Hann hlýðir, hann er súper¬alfaapi meira en nokkru sinni til þjónustu reiðubúinn. Þetta er efni í minnst þrjú hundruð sonnettur svo fagrar og fullkomnar að þær heyrast ei. Augun skjóta sterkum rótum hvort í annars líkama og hugir reyrast þegar saman, ósundur¬slítanlega. Sú blessaða þögla stund, einlæg, heit, feimin og fögur.
„Áttu eld?“ segir hún og réttir fram höfuðfingur.
„Áttu sígarettu?“
„Nei,“ segir hún opnum munni.
„Ekki ég heldur.“
Marlborough sígarettupakki gerir vart við sig upp úr brjóstvasa Himinhrjóðs. Máney finnur hlýjuna leggja af honum, en hann vill hvorki gefa henni eld né sígarettu. Mótlæti dagsins heltekur hana og nýfundin ást virðist þegar dauða ofurseld. Ástin sem uppfyllir Himin¬hrjóð gerir hann dumban og dreifbýlislegan, sem Máney litla mistúlkar, svo hún tekur á rás yfir Austurvöll.
Máney finnur sárar en áður hið kalna hjarta, frosin brjóstin og í skautinu góða ísi stunginn svörð, er hún í örvæntingu stikar í átt til Alþingishússins. Hún veður drukkin í villuskýjum og Himinhrjóður mænir á eftir úlfslegum ástaraugum. Svo kaldir vindar næða um huga að þau finna sárar en áður veldi þeirra sem mega sín, þeirra sem hafa reisn og vald í Hollywood og öðrum skógum og óafvitandi hefta frelsi hug¬myndanna svo þeir sem eiga saman mega ei saman ná. Sem hún nálgast steinhúsið hlaðið fögrum vonum utan um gömlu skrýtnu tunguna og frelsis¬þrá lítilmagnans stingur hún þjóðar¬skútuna röntgensjónum. Hugsar til grá¬spreng¬dra Alþingis¬hrúta og -nauta og skynjar eftir kvennafundinn sem runnið hafi af henni gríma, að aldanna róf hefur sett í hana kraftlausa óafmáanlega vinnu¬konusál. Hún er sjálf hin kúgaða þjóð og nýir kúgarar hafa tekið við sem hamla því að hugs¬unin komist frjáls út í heimsborg frelsisins fljúg¬andi tungu sem allir skilja og sjálf skilur allt og sameinast hinu rennandi nýja heimsvatni. Loksins þegar frelsishug¬myndir komast inn á lóufrímerkið – um loftopið á indjána¬tjaldi íslenskrar tungu – er búið að skæla allt og skekkja. Kúgunarlykt í lofti ný. Á tjaldinu eru aðeins liðlega opnar dyr fyrir hámenntaða, ríka og valdamik¬la sem skáka í skjóli gróinna ætta og ferðast um heiminn á Sagaclass.
Hugsunin nær ekki þessu flugi, en tilfinningarnar ef þær gætu breyst í orð finna sviphendingu áratuga og eru fyrir¬boði skekkjunnar og sársaukans. Það á að fljúga beint inn í hið nýja framtíðarfrelsi í samvinnu og gæsku án haturs og illsku sem sundurklýfur tungur, þjóðir, kynflokka, stéttir og kyn. Frelsið er í sundur¬þykkjulausum og frjálsum sam¬runa alls kyns dýra. Þjáningin opnar sárbólgin augun. Hún með sitt sannmjúka kynbætta kveneðli er hálf án karl¬manns, með læstar dyr inn í dýrðardalinn, í eðli sínu fín og mjúk framlenging hans. Og án hennar er karlmað¬urinn, sanni og kynbætti, ráðvillt óslíðrað sverð sem hyllir til sín eldingar. Mannskepnan öll er óafmáanlega klofin í tvö kyn, en nú búið að rugla allt sýstemið og öllum búin kvöl. Það mun þurfa að flytja inn ameríska kynfræðinga og kyn¬tækni til að bjarga því sem bjargað verður, svo homma¬skapur og sjálfsfróun fylli upp í hið auðnulausa skarð kynja á milli sem hótar að sprengja allt upp í sársauka. Hvenær skyldi endurómur þeirra nærandi hugmynda hræra litlu tunguna? Alþingis¬menn, þægir og jarðbundnir með stoltar þjóð¬ernis¬sinnaðar konur sér við hlið, skynja ekki innflutt kyndoða skrímslið sem sigldar menntakonur hafa flutt inn skælt og beyglað og tekið hefur að gnaga svo jaðra hinnar íslensku pönnu¬köku að sannar konur og sannir karlar mega ei lengur finna fró.
Himinhrjóður finnur sömu sáru hræringar, nístur sama doða uns Máney hverfur honum bakvið símstöðvarhúsið. Þá lýstur hann úr alheimsfjarskiptastöng elding brennandi kvala, sem hann hefði fest sjónir á Máney með teygju¬bandi er brast þá hún hvarf. Hann riðar á fótunum er á honum skellur sú teygju¬magnaða kvöl, lokar augunum og sér síðasta vonar¬skipið sigla fram af sjón¬arhring válegra skýja. Kvenleikinn sjálfur í gerfi hinnar beiskjulausu nætur¬drottningar var það eina sem endur¬reist gat hans gefandi karlmennskuþor. Fæturnir draga þrumu¬tætt taugabúntið heim Pósthússstrætið í drunga¬legri skímu illviljaðra götuljósa. Hann ráfar undir djöful¬dómi luktanna zikk zakk, þær toga hann til sín sem villutungl og brenna eldgígum. Hann fer sér hægt sem sá sem enga heimvon á.
Hann beygir til vinstri inn Hafnarstrætið, því hreysið hans tómt er fullt af sárri geðveiki. Dagur líður út strætið í félagsskap róna sem fastir eru við fótspor sín frá fyrri tíð, við hlið bændasona úr Flóanum sem forðum voru táldregnir af Hafnarstrætisdætrum og svo kastað því þeir voru ekki staddir í réttri öld. Hann fer milli gang¬stétta ólíkra tíða, en þó líða árin sem hann stikar gegnum hratt, fyrst í ræsinu, þá á miðri stétt, síðan þétt upp við veggi svo hann ekki hrapi niður um járnristar, uns hann ekur til vinnu á glæsi¬vagni, ólukku¬legur en búinn að ná jafnvægi fyrir tilstuðl¬an óþrjótandi lífsvilja. Hræringar mánans kveikja veika von um að upp¬magnist úr leyndum kimum sólkerfisins betri tíð. Loks togar tíðin hann blindan og þósjáandi inn Aðal¬strætið, hann leggur ameríska bílnum hjá Hlöllabátum í höfn og stikar að ísbúðinni. Hægt en örugglega rak hann sína leið, því ferðin frá Hótel Borg hefur tekið ótal ár. Hann togast og sogast svo skyndilega er hann staddur framan við Morgunblaðs¬höllina í helgum svifum er engin önnur en Máney kemur vífandi að úr hinni áttinni. Allir heilagir, hér hófst dagur ógnanna, hugsar Himinhrjóður, nú mætti einu skrattahringferli lokið!
Bæði eru þau reynslunni ríkari. Eyðimerkurganga þeirra frá Hótel borg um elda og ísa í innvortis baráttu við forynjur hefur búið þau undir þennan síðari fund, og þau eru staðráðin í því jafnskjótt og þau ná anda og glóru að láta happið nú ekki úr hendi renna. Himinhrjóður stingur sígarettu milli vara Máneyjar áður en hún hefur fengið ráðrúm til að biðja um eld og kveikir svo í henni með kveikjara sínum af Ronson ætt¬bálkinum, snöggur, öruggur og gefandi eins og sjálfur skaparinn. Hún sýgur áfergjulega þótt hún sé hætt að reykja, horfir blíðlega en neglir hann jafnframt brámánum, en hann dregur upp Camparíflöskuna með passíulitum vökva allra sinna þjáninga og hún sýpur á þiggjandi með sama fasi og gefið er. Þau senda frá sér ósýnileg rafboð og ljósmerki líkt og marglitir smokkfiskar suðrænna sæva, sem nýlega hefur komið í ljós að eru meist¬arar í sjónræn¬um samskipt¬um. Máney nemur góða þýðingu atlota er passíueldurinn eilífi fer um hennar betri parta. Munnurinn nær við þetta að þiðna.
„Ég hef verið hrakin úr hópi mínum í skugganum því ekki vil ég festa hugsun við steina og grýta þeim,“ segir hún, „og á nú hvergi heima. Ætt mín hefur brugðist mér og óðöl mín eru ekki lengur. Í borginni ætla karlar mér lítinn sóma, engin lyklavöld, hvorki þá sjálfa, land, heimilisfólk né skepnur að ríkja yfir. Svo er líkami minn mér meinaður og hraðfrystur af öfund¬sjúkum og illum stjúp¬systr¬um mínum sem hent hafa mínum netta skó og þykjast með því endurheimta forna reisn.“
Himinhrjóður finnur þegar hér er komið sögu vísi að lífi kvikna neðan þindar og eygir ólma von er hann finnur hve hún sogar til sín geisla hans svo nýir kvikna, hún er sem hann vissi sínu dýrslega næma viti sú eina sem verða má honum til lausnar og líkama hans. Þetta er einstæður fundur, vonin verður þegar hörð perla, svo hratt vinnur hafið með ostrunni, hin harða vonarperla kviknar sam¬stundis í þessu frægasta dýri af ætt vanvöðv¬unga úr Hollywood.
„Ó finnur þú ekki, allt það plagerí skiptir nú skyndilega ekki lengur máli, þetta er einstæður áríðandi fundur og mikið upphaf, kondu!“ segir Himinhrjóður. „Hlæjum og kveðjum hörmungar vegarins hingað með því að fá okkur ís.“
„Nei,“ segir Máney, en augun eru biðjandi og viljandi fyrir því.
„Lífgum þá hvort annað við í risþakherbergi mínu.“ Máney hefur sitthvað lært á göngu sinni því hún jáar ljómandi á lærðan hátt.
„Grimmsbræður slepptu sannleika sjálfrar náttúrunnar sem lifði í alþýðumunni er þeir skráðu söguna um Mjall¬hvítu, því prinsinn vakti hana ekki aðeins með tungu sinni heldur líka limi. Þessir heiðursmenn slepptu þessu af hollustu við þau fornu góðgjörnu evrópsku öfl sem vildu ekki að mann¬kyn fjölgaði sér um of svo úr yrði stanslaus ómegð og stríð.“ Svona launklæmist Máney í gleði sinni, en Stark¬aður leggur strax lipurlega út af þessu og nýtur sinnar staðgóðu bókþekkingar:
„En nú eftir iðn¬byltingu og heftingu sæðis og eggja horfir öðruvísi við. Nú getur prinsinn skamm¬laust vakið Mjall¬hvítu eins og allt karlkyns sem lifir á landi og sjó gerir bros¬andi í heilögum ljóma aukandi dagsljósið. Fiskarnir líka.“
Svona hugljóm¬ast þau við fundinn og leiðast fjarri sjálfum sér og fornbókaverslun Braga heim Hafnar¬strætið. Jörðin hefur gleypt alla róna, en í búðar¬gluggum og banka eru nú fulltrúar dóna, þeas. helstu dýrategunda jarðar að þjóna eðli sínu og kalli skaparans. Þau líta í hvors annars augu rjóð, sjá þar hið sama, undur og stórmerki, ekkert um þetta er að finna á miða Camparí¬flöskunnar. Og lífið svo dónalegt og dónaskapur þess svo nálægur bullast upp milli gangstéttarhellna og þar sem frumur ólíkra hlutverka mætast inn¬vortis. Þau leiðast eftir strætinu undir þessari rosalegu hviðu, inn í húsið og upp stiga gamla hótelsins Alexöndru sem marrar í djúpt inn af eftirvæntingu.

3

Loks eru þau stödd í þakherbergi Himin¬hrjóðs. Þar er allt á venjulegu tjá og tundri sem sýnist heilagasta sam¬ræmi nú þegar Máney fellur inn í mynstrið. Þau setjast á óumbúið rúmið og haldast enn í hendur. Það er alveg nóg og langt í græðg¬ina, hún sefur kynslóða¬djúpum svefni. Þau eru ögn vand¬ræðaleg þegar þau hugsa um það sem dýr gætu gert, hann finnur ekki fyrir sér að neinu gagni neðan mittis og hún er enn frosin frá toppi til táar með stífan háls, þótt munnurinn sé rjóður. Svo sitja þau langa hríð þegjandi undir dúndr¬andi slætti innyflanna sem í dýpinu þar sem frumurnar skipta sér taka að boða það sem verða vill, eins og innyfli fugla forðum í Rómaríki. Hún horfir kringum sig á mublur herbergisins sem leið liggur upp á plakötin í loftinu undir súðinni og finnur sig þar í höll¬inni. Himin¬hrjóður forðast að líta á Máneyju, en þau haldast í hendur og vilja ekki og geta ekki sleppt. Hún hefur fundið týnda lambið sitt og hann móður sína, svo saklaust er augna¬blikið. Nætur¬drottningin ljómar og lýsir upp skítakitruna, því hún hefur endurheimt völd sín.

Á Hótel Borg er dans kvennanna í trylltum vitfyrrtum algleymingi, þær hafa ölvast af hugmyndinni um takmarka¬laust karlmennskuvald sitt, þær skynja sinn djúpa kvenlega dýrskraft, vald yfir eigin líkama, barna og karla, og dansa úti í alheiminum hönd í hönd og hug í hug. Brot úr ræðu berast milli himinhvela.
„Á eftir iðnbyltingu tækninnar kom iðnbylting hugar¬farsins og loks hugarfars kvenna. Fyrst breyttist þjóð¬félagið og þá verður öll skipan kven- og karlhlutverka að breytast. Iðnbyltingin var lengi að ólmast þar sem lætin voru mest áður en hún smaug hér inn í blíðan kvenna¬geislabaug¬inn.“
Þær brosa og þykjast finna til blíðu sinnar. Auðvitað þurfa þær nýjan stað í nýju þjóðfélagi, en þær heyra ekki í fjall¬konunni og systrum hennar í fornum klæðum sem vara við. Þær segja „uss, brjótið ekki eðlið í þessum látum og náttúrlegt jafnvægi sem tekið hefur árþúsundir að koma á. Auðvitað erum við sterkar og ægilegar og vald okkar algjört yfir því sem máli skiptir, yfir börnum í belg og á brjósti og alla tíð síðan, yfir bræðrum, feðrum og ástmönn¬um, en við höfum tamið okkur lymskulega framkvæmd. Þeir verða að fá sinn vettvang til að finna til mikilvægis síns, annars lyppast þeir niður og verða okkur ekki til nokkurs gagns. Þið getið stjórnað heilum ríkjum með niðurlúta karlmenn sem aðstoðarmenn, það hefur oft verið gert og verður oft gert. En uss, látið ekki svo illa, það er nóg pláss fyrir vald í öllum hvelum, og tónlist hvers hvels er heilög og fyllandi. Látið ekki auglýsingar og skrum um hvað sé fínasta valdið trylla ykkur og koma öllu úr jafnvægi. Brjótiði upp félagsskap þeirra beta-apanna, þar sem þeir vansælu ókynsælu karlar finna sér gleði, þá brotna lönd og bönd og brotna börn og mikil ótíð verður í heimi. Farið varlega,“ hvísla hin fornu kvenrögn.
En hinar dansandi konur kalla upp svo hávær hvatning¬arorð hver til annarrar og eitruð eggjunarorg í sín gjallar¬horn að þær heyra ekki. Enda eru þær sem verst láta beta-apynjur, með smáa kvenhormónaskammta innvortis, stóru systur Öskubusku sem ætíð hafa verið forsmáðar og valda¬lausar. Alfa-apar í skógi sinna öllum apynjum, láta ekki útlit og fegurðarsmekk aftra sér eins og karlar. En svo dýr fórn hefur verið greidd fyrir mannlegt vit til að þróa kvenlega fegurð að viss hópur óaðlaðandi kvenna hefur verið forsmáður af körlum, og mannlegu beta-ap¬ynjurnar vilja ekki vera í sauma¬klúbb¬um og kvenfélög¬um, þau eru úrelt, þær hafa ekki enn lært frá Ameríku að þær geti snúið ástum sínum saman eða farið í kynþjálfun til að auka kven¬hormónin og þar með þokka sinn. Þar fengju þær vald og finndu nærandi gleði sam¬runans. En innan um eru fagrar meyjar sem taka þátt í kvennadansinum að styrkja sig, því þær eru svo linar innvortis. Þær eru dætur linra og kúgaðra kvenna, ekki kvenna góðra búa með bækur, ráð og reisn, ekki dætur sterkra kvenna, heldur dætur ræfils¬tuskna með dýpt og sjóndeildarhring sem aðeins náði yfir þvottabalann, nálaöskjuna, skærin og pönnuköku¬pönnuna. Víst þurfa þær að styrkja sig í nýju sam¬félagi sem hefur stækkað svo vettvang lýðsins en gleymt konum, því þær vantar svo mikið upp á sinn náttúrulega og lúmska kvennakjark til að stjórna.
Á dansgólfinu stíga þykkir og léttir fætur þungan dans, og á börunum standa konur eða sitja á barstólum, svelgja karlmannlega drykki og láta dólgslega.
„Þetta er okkar heimur, við eigum þennan heim!“
Við háborð eru höfuðgrybbur en við langborð sitja lúður og laungrybbur og erkigrybbur eggjandi hver aðra lögeggjan.
„Við munum gefa út tímarit og það skal heita Láttu mig vera!“ segir erkikvenndi sem sér vítt og breitt, með sjálfstaust íslenskrar hástéttar og laglegan svip og nettan fót, en þó gerir óróinn inni fyrir það að verkum að hún virkar ljót eins og erfðasyndin. Öskrin berast um allan bæ svo blindan rennur af karlmönnum, þeir átta sig á því að táfýlu¬sokkar¬nir fara ekki sjálfir upp í hillu, æ fleiri sjá að kúkableyjur geyma mikinn sannleik, að uppvask eru forréttindi sem róar taugarnar og eldamennska gefandi listgrein. Þeir sem ekki höfðu eðlilega réttsýni og vinnu¬gleði heima fyrir í blóðinu finna fljótt að virk þátttaka þeirra innan heimilis¬garðs gerir konurnar glaðari og mýkri í rúminu.
„Setjum á stofn kvennakirkjugarð!“ segir önnur kjark¬mikil og hámenntuð hástéttarpíka illa spennt vegna smit¬andi taugaveiklunar sem gengið hefur kynslóða á milli í langan kvenlegg. Mæður hennar hafa í nokkra liði orðið fyrir barðinu á hórhneigðum eftirsóttum alfa-eiginmönnum, sem vegna sjálfs¬bjargarviðleitni taugakerfis¬ins hafa beint sæði sínu í glaðari skaut. „Formæður okkar hafa of lengi mátt kveljast millum kúgara sinna í almennum görðum,“ segir hún. „Stofnum kvennakirkjugarð og þar skulu konur einar lagðar til hinstu hvílu!“
„Heyr, heyr!“ Fer margróma um hópinn og fagnaðarlát¬um ætlar seint að linna. Allar dansa Völurnar Óla skans og kætast enn meir þegar leikin eru leggöngulög svo loftið í salnum fer upp í fjórða himin.

Máney snertir smátunglum bráa sinna mublur og muni hins þrönga þakherbergis, sem hún situr við hlið Himin¬hrjóðs á óuppbúnu rúminu, súpandi af og til úr Camparí¬flöskunni sem hann réttir henni. Augun leika við borð, við uppstaflaða trékassa fulla af bókum, við stól, opinn klæða¬skáp, lampa og peru sem hangir æ fagurlagaðri niður úr loftinu. Þótt Himinhrjóður skíni sem sól sjást stjörnurnar hans þó. Plakötin með tvíburasystkinum Himinhrjóðs úr Holly¬wood verða svo lifandi að þau eru ekki lengur ein, heldur umkringd góðum vættum. Hún leiðir hvern hlut djúpt í hug sér um augun. En frostnóttin situr föst í líkamanum, slíkt er ofurvald aldagamallar siðsemi og bölvun stjúp¬systranna sem hafa óbeit á sýningu fegurðar, og æsandi tilburðum sem þær kenna við hór og kúgun karlmanna á siðprúðu lopaeðli kvenna. Þær eru þó víðs¬fjarri á Borginni hnekkjandi eðli hinna þrúgandi turna. Hún gæti því laumast til að skjóta fram mjöðm, og átt það við samvisku sína síðar. En þá gæti Himinhrjóður haldið hún væri bara lauslátt hversmanns síðdegisgagn, hún sem vill eiga hann einan að eilífu.
Himinhrjóður situr við vinstri síðu hennar og heldur fast utan um hana og karlmannlega, með spennt brjóst og upphandleggsvöðva. Hann örvæntir því engin tilfinning gerir enn vart við sig í neðri og mikilvægari hluta líkamans, takist honum ekki að sanna sig gæti hann misst hana eilíflega. Stjórnstöðin hefur brugðist hlutverki sínu, eitthvað afsalað sér völdunum, svo hann veltir vöngum innvortis um hvað taka skuli til bragðs, hvort hann sé dofinn orðinn endanlega eða hvort eitthvert það ráð finnist á jörð eða himni sem dugað gæti til að endurreisa lífið og koma stjórninni til valda. Hann leggst örmagna aftur á bak þegar slokknar á hættulegri hugsuninni og dregur Máneyju með sér svo þau liggja í rúminu en fætur dingla fram af. Hann hugsar nú dugi ekkert nema barns¬leg einlægni og hreint hjarta og fer að hugsa upphátt sér til lífs, ef ske kynni, um kynlífssögu sína, upphaf, full¬þroska og sigursælt gelluskeið síðar um víðan völl.
„Himintunglin hittu mig kynlegum sætleika strax þegar ég var aðeins drengur. Eldri barnfóstra í sveit leiddi mig inn í launhelgar sínar fákunnandi og hagnýtti sér trúnað minn til að fróa nýfæddri og vaxandi ástríðu sinni.” Hann lýsir í smáatriðum orðlausum fortölum og þöglum kænsku¬brögðum augna og hvernig hann flettist klæðum neðan mittis svo stífnaði barns¬lim¬urinn. “Þetta gerðist er fólk brá sér af bæ, hún setti ekki fyrir sig æsku sína né mína né ódugnað en skemmti sér stutta en stóra stund við leikinn rjóð og heit.“
„Ó,“ segir Máney, „ég hef borið kinnroða fyrir slíkan leik og hélt ég væri stök í minni sök. Ég var tólf ára og gætti drengs sem aðeins var bleyjubarn á Vestfjörðum. Ég tók hann ekki úr bleyjunni en setti fót í klof honum og hrærði fótinn mjúklega, við þetta kom í mig ótrúlegur himinhár hiti. Lifað gat ég með þessu því bleyjan var þykk milli okkar, og sokkurinn minn auðvitað.“ Svona bætir hún sínum trúnaði við hans, svo öryggisbönd taka að tengjast, og augu teygja sig stutta stund saman. Himin¬hrjóður finnur sig sem frummann í frum¬skógi, þar sem blærinn leikur við sakleysi allra lima óhefta siðuðum böndum. Hann tekur að telja fleiri brögð er leikin voru við hans leyndu parta unga. Þar til rifjar hann upp eldri karl nokkurn sem ósínkur var á fé og sælgæti sem Himin¬hrjóður sárlega girntist. Hann gleðst við þessa upprifjun og hugur Máneyjar hverfur í sköp hennar ung og þær fáu annarlegu stundir þegar hún fann þar til lífs.

Á Hótel Borg er einmitt í þessu verið að enda við að samþykkja með handauppréttingu stofnun Kvennakirkju¬garðsins. Eðalgrybba ein æsist svo við hugsýnina að hún lýsir því yfir að hún ætli strax að láta flytja þangað ösku móður sinnar, nýlátinnar fráskilinnar fimm barna móður. Aðrar renna í kjölfarið og hampa líkamsleifum mæðra sinna og formæðra og vilja láta flytja hið fyrsta úr vanhelgum reit karlveldisins í launhelgar gresjur systralagsins. Þær sjá í hillingum þá stríðu skrúðgöngu með kistur og systur, hver vill verða fyrstur?
Sviknar konur mynda sérstakan þrýstihóp, hjúpaðar miklu ósýnilegu réttlæti, því enginn getur neitað því að svikin voru mikil eftir að skilnaður var almennt fundinn upp og fluttur inn og fyrstu stúdínurnar höfðu kynnt sér karlaheim bóknámsins. Yfirþrýsti¬hópurinn er skipaður stúdínum þeim sem unnu fyrir stúdentum í námi, sköffuðu þjónustu og báru þeim börn í stað þess að byggja sig upp, og hlutu sín laun er þeim var kastað fyrir yngri, hold¬stinnari, heimsk¬ari, stimamýkri, kvenlegri og aðdáunarfyllri hjúkr¬unar- og skrifstofudömur.
„Verði þeim að góðu!“ hrópar sú svikn¬asta, og hinar taka undir. „Þær eru harðbrjósta eigingjarnar hórur, reynslulausar og heimsk¬ar! Og þeir eru siðlaus hórkarla¬kvikindi! Lög ná ekki yfir sum afbrot, og því gæti þurft að flytja inn í landið gamlar grundvallarkúnstir, ég er að tala um vúdú.“ Og spennt andvörp hugsanlegra hefnda fara um hópinn.
„Limur er lögbrot og réttdræpir þeir sem við ranga mey reistan munda!“ segir ein hámenntuð, sem komin er með ótímabæran sveskjumunn af hörku. „Séð skal í gegnum fingur við það sem eigi verður án verið, firrtist eiginkonan hins vegar getur hún kært og skal það opinbert mál. Systur ráði reisn sinni og manns síns. Öll reisnarráð skulu fengin í hendur systralagsins, sem og ráð öll önnur og völd. Systur, hann skal frystur!“
„Hórkarlinn skal frystur, og hugsun þæga eiginmannsins með sem lítur á aðrar. Og þeir sífellt talandi um óstjórn í þessu landi, sem enga stjórn hafa á löngun sinni. Hvernig væri ef við hættum að hugsa um börnin og færum að klípa unga drengi á vinnustað!“
„Já, karlarnir sem ekki líta í kringum sig eru nefnilega ómögulegir.“ Nú eru þær komnar í hring og sjáfum sér kvenlega ósamkvæmar kinka þær kolli, en verða svo hugsi og herpast aftur, og sjá að sú sem síðast mælti hefur lengi verið einstæð og er orðin ósiðlega desperat.

Í þakherbergi við Hafnarstræti undir brattri súð liggja hlið við hlið Himinhrjóður og Máney og eftir ofur litla þögn tekur Máney til máls, hugsar upphátt ef mætti það verða til að verma ofurlítið hið frosna skaut, miðla hlýju í hörð innanlæri og mýkja ögn maga og lífbein.
„Ég átti heiðarlegan, lágvaxinn og feitlaginn afa sem lærði virta iðn sína í höfuðborg hins nautnalega Danaveld¬is, þar sem víst er að siðprýði þýskra sanntrúarhópa hefur aldrei náð að spilla mýkri hollenskum og frönskum áhrifum. Afi var fæddur í fiskamerkinu og með heitar munúðarplán¬etur sem stýrðu honum aðeins út fyrir viðteknar lútherskar æxlunarhugmyndir. Hann snerti ekki áfengi, en fékk uppbót munúðar í digrum vindlum og góðri örvun neðri parta. Ég var barn og hafði ásamt heitri elsku til Jesú fengið það í mig að fitl við hið neðra væri bannað, illt og hættu¬legt. Inni í borðstofu hjá afa tyllti ég mér átta ára mjóslegin með strekktan mjóan belg, dökkhærð og forvitin og lágu þá ekki í hrúgum á borðinu blöð sem þeir sem telja sig heiðarlega kenna við klám. Samkvæmt siðferðis kokkabók¬um á barn ekki að hafa neinar kenndir. Úr hæðum full¬komins sakleysis leit ég þessar munúðarfullu konur í silki og dúnklæðum með hita í augum og vörum sem beindi sjónum niður að því sem á að vera en ekki var hulið, þær sátu gleiðar í sloppum sínum með gefandi brjóstin stand¬andi út úr hýjalíninu og neðar sem svar við hita augna og vara brostu blíð og blaut sköp, á ég að segja píkur, pussur, pomm eins og amma sagði, þarna var þessi mann¬kynsvegur opinn og biðjandi á þessum blygðun¬arlausu konum …“
„… sem kven¬fræð¬ingar segja ekki langa sjálfar heldur niður¬lægðar af karlpeningi.“
„Já, en ó þessi niðurlæging þeirra hafði svo sæt áhrif á mig barnið, sem ekki fékkst svalað og var því sætari, sterkari og strangari kynsætleiki en ég hef fundið fyrir síðan með fullum þroska. Ég var sem lítill barnengill fastur á skýi lítandi niður í djúp víns og vínberja á ósýnilegan lim Díonýsosar sem beið þess að fylla þessar sárbeiðandi, sætbrosandi konur.“
Nú kemur siðprýðin upp, og Máney vill sýnast siðsöm þótt hún hafi búið sumartíma í verbúð, hún vill bara Himin¬hrjóð, hún má ekki sýnast of lostafull og reynd. Hann má ekki halda hún sé ein gæs, sem ekki sé hæf til einkvænis, heillyndis og iðkunar góðra dyggða.
„Ég óttaðist þetta dýpi og einhvern veginn rann um æðar fordæming vestrænna alda runnin frá hugmyndum fornra einsetumanna um illar lauslátar konur sem niður¬lægðu karlmennskuna, um illsku hins náttúru¬lega og dýrslega. Nei ég var ekki frjáls eins og konurnar hans afa, eitthvað kannaði ég og vann í sjálfri mér í leyni en var í nokkur ár óspjölluð af karlmanni eftir að ég varð kynþroska. Þeir áttu að elska mann djúpt og mikið og maður þá eins og í Hollywoodkvikmynd, það er þessi hugmynd og hún er örugglega rétt að maður eigi að elska einn og aðeins einn með öllum líkamanum og allri sálinni, það sé best og lífinu og hamingju manns þóknan¬legast.“
Máney lítur á Himnhrjóð nokkuð ánægð með sig og þetta síðasta.
„Ég hef skakklappast um kvenna á milli, þó hef ég innst inni aldrei sætt mig við minna en Hollywooddraum¬inn heldur, plakötin mín halda honum stöðugt við.“
Máney liggur hljóð, og rjóðari en nokkru sinni, svo hann heldur áfram.
„Þú ert fallegri en þær allar.“ Allar! hugsar Máney óttaslegin, andar djúpt og einbeitir sér að því að sýna ekki ótta, heldur vera svöl og svarar.
„Við erum góð eintök.“ Þá er að klúðra því ekki. Samræðurnar eru enn of háfleygar, Máney er virkilega viðbúin snertingu, en hann gerir ekkert svo hún áræðir að eggja hann enn með lítilli frásögn úr þroskasögu sinni.
„Ég átti ansi kyndofinn kærasta, og það ergði mig að hann skyldi aldrei leggjast til atlögu, ekki þorði ég að ráðast á hann eins og fúría hættandi á að skemma hið góða, normala og eðlilega orð sem ég vann hörðum höndum að því að afla mér, átján ára mey. Loks við smurningu áfengis varð ég eftir hjá vini hans, sem greinilega hafði meiri hug og dug. Hann var geðslegur og ákaflega karl¬mannlegur, en samt síðri draumaprinskandídat en hinn, hann var ekki smáfríður og ekki alveg af réttri stétt, var ekki í menntaskóla og þar að auki utan af landi.“
Himinhrjóður mátar sig í flýti við þessa lýsingu, og finnur hann hefur alla kostina sem hún kom upp um að hún teldi prýða.
„Ég dreif í því í vímunni að láta afmeyjast, út úr leiða, mér fannst ég vera að dragast aftur úr vin¬konum mínum. Ég lá stjörf og tók sáru skauti móti framandi ósýnilegum rauðhöfða sem hann keyrði dugnaðarlega inn í mig. Það kom ekkert blóð, ég hafði afmeyjast í baði við nautnakann¬anir sjálfrar mín. En þó var það þröngt og sárt sem stæðu upp í mig allir naglar og ég bað þess innilega það tæki sem skemm¬stan tíma. Á eftir vildi ég ekki sjá drenginn. Árum síðar með aldri og þroska hef ég hugsað mig í frumstæðum ættbálki í skógi, þar sem eðlinu hefði sam¬stundis verið fundinn eðlilegur farvegur. Hef hugsað um óttann og Hollywooddrauminn sem lokaði öllum kynlífs¬leið¬um og stíflaði ástina og öflun maka fyrirfram. Ég fékk örugglega óhollt þunglyndi af þessum klemmum og djúpar missýnir varðandi heiminn og sjálfa mig.“
Ekki eykur þetta gáfutal kjark Starkaðar, en skilning og samstöðu. Hann þegir svo hún heldur áfram.
„Ég var fjórtán ára í sveitinni og bóndasonurinn, miklu eldri en ég svaf úr sér áfengisvímu frameftir á laugardegi þegar ég í klaufaskap gekk þar inn með tuskuna, ætlaði að sópa minn morgungang og hella úr öskubökkum. Ég var um það bil kyn¬þroska svo í eðlilegu frumstæðu samfélagi hefði ég við þessar aðstæður hegðað mér sem frísk og lifandi lítil apynja. Sem ég opna dyrnar sé ég stóran loðinn líkam¬ann í hitamóðu liggja nakinn ofan á sænginni og bjallan og kólfurinn klingjandi öllu ofar djúpt í vitund mína. Slíkt hafði ég ekki séð nema föður minn þegar ég var smásíli.“
„Bjallan og kólfurinn, já …“
„Nú, eftir víðan lestur út úr kristnum heimi fyllist ég eftirsjá og læt sjálfa mig í huganum gera hið eina rétta, því maðurinn geðjaðist mér mjög. Í stað þess að fá næstum því hjarta- og hugaráfall, missa andann og loka hurðinni að bragði smeygi ég mér hljóðlega nær með litla meyjarkropp¬inn, lyfti upp pilsinu, sest ofan á annað loðna lærið og þrýsti mér mjúklega að svo hann vaknar.“
Máney lítur nú forvitin á Himinhrjóð, hefur haldið sið¬semis¬ímynd sinni en jafnframt gefið í skyn eðlilegan vilja. Hann sleppir hönd hennar, snýr sér á magann í rúminu, setur hendur undir kinn og horfir í glöð og einlæg augu hennar inn. Hann finnur að líf er tekið að streyma út í limina neðan mittis.
„Þú og þessi saga þín er dýrmæt,“ segir hann og finnur smá svörun undir sér niður í fjaðradýnuna þegar hann ýtir mjöðmum sínum niður, og bætir við í huganum, gæti orðið lífgjafi minn.
„Ég sé þína sönnu liti ef ég horfi djúpt óhræddur og hlusta, og þú sérð mína.“ Hann hallar sér hrærður að henni og kyssir mjúkt og hægt munninn, og það mýkist á henni og stinnist á honum í neðstu miðjunni, og bæði fara upp í regnboga og finna vængjaþyt.
„Það voru ekki heldur frægðarfarir í upphafi ferils míns, en þó þarf ég ekki að skammast mín.“

Glundroði ríkir á Hótel Borg, því svo mörg verk eru óunnin og karlar halda fast í embætti sín og svikular þjónustu¬samar konur sem þeir enn hafa undir sér. Hatrið magnast því grybburnar verða spenntari og spenntari og þá um leið ljótari og ljótari. Þær fyllast æ meiri heift uns hún snýst í hring og fer sjálfkrafa að snúast um sjálfa sig í þrálátri endurtekningu. Nú sakna þær þess í laumi að hafa ekki fleiri limi innanborgar sér til leiks og gleði. Þær þykjast nú hafa í fullu tré alls óhræddar.
„Við höfum ráð ykkar og reisn í hendi okkar eins og sleif.“
Þegar vel er að gáð kemur þó í ljós að í kvenhafinu leynast ekki ófáir mjúkir karlmenn reiðubúnir að hverfa endanlega inn á heimilin meðan konur leggi stund á sína stjórnsýslu annars staðar. En það er verst að þær verða ekki svo skotnar í svona mjúkum.
En þarna er enn á ferðinni mjög karlmannlegur drykk¬felldur ævintýramaður af lands¬byggðinni, hefur gefist upp á því að þykjast vera erlendur framkvæmdastjóri úr kvik¬mynda¬bransanum innan um þennan vel menntaða kvenna¬blóma. Hann hefur hægt um sig, fer glaður á milli, svarar greiðlega ef hann er spurður en abbast ekki uppá neinn að fyrra bragði. Af og til gefur hann sig á tal við Ameríku¬manninn og Rússann, en annars er hann mest einn síns liðs og þannig stendur á er hann lendir í skarpri sjónlínu erkigrybbu nokkurrar sem er sem þriðja kynslóð á mölinni örugg um sig í múglífinu. Þegar hún lítur breiða bringu ævintýramannsins umhverfist hatur hennar á karlkyni í hárauða löngun, logandi greddu. Hún ákveður með sjálfri sér að láta hann ekki sleppa frá því að veita henni þá þjónustu er hann eigi að vera fullfær um og gerir vart við sig með látum. Svo fer að ævintýramaðurinn stenst ekki straum hins ósýnilega fljóts sem sogar hann til hennar og standa þau fljótlega saman upp við barinn og skála, en hann jánkar heitur öllu sem hún segir án þess að ergja sig á því að láta hugsunina smala saman orðunum. Slíkur er áhrifamáttur sjálfsefjunnar og hefðar að brátt telur hann sér trú um að hann hafi veitt sér þessa stelpu. Kætist hann mjög og hyggur gott til glóðarinnar sem þegar logar innra með honum.

4

Himinhrjóður heldur áfram sögu sinni þegar Máney hefur svalað honum svo með sínum sögum. Hann er staddur á útihátíð, og þar sem barnfóstrurnar eru einu elskurnar sem hann hefur þekkt svarar hann kalli stúlku sem er eldri en hann og reyndari. Allt gerist þetta í flaustri snöggrar og framandi vímu í kuldatrekki í botnlausu tjaldi. Svo er hann æstur og vilji hans góður að hann missir á stjórn og kemst varla inn í hana, en þó verður honum fyrst lokið er stúlkan hlær grófum drykkjuhlátri af klaufaskap hans, og beygir með því vilja hans og getu.
„En ég lét mér þetta að kenningu verða og valdi mér síðan lengi vel þær einar sem lítið kunnu, voru yngri og þurfti ég þá ekki að óttast óhagstæðan samanburð, enda small þá fljótlega limur í löð sem í sögu, fyrir mig alla vegana.“
„Sumir vilja þær smáar, kunnáttulausar og ungar fram eftir aldri“ hugsar Máney, en hún rekur þá hugsun strax og hún kviknar á haf út með annarri sterkari, „ekki þú og Clint Eastwood, ekki þú Himinhrjóður,“ hún vill síst ýja að veikleikum sterka kynsins og skemma þann seiðing sem farinn er að fara um fjaðra¬dýnu og gæsadúnsæng. Augu Máneyar eru heit og gljáandi og hún öll að verða eins og heitt Camparíflauel að innan, í brjóstum, innanlærs og í djúpinu þar á milli. Jörðin kallar. Hún lokar augunum og ætlar að taka hönd Himinhrjóðs og leiða til svars, en sem hún finnur handlegginn er hönd hans tekin að svara. Hún heldur heila ræðu innvortis svo röddin trufli ekki rafteng¬inguna sem er að hefjast:
„Sú hönd sem er skynug ratar rétta leið að æra holdið, svo það brýst um með vatnsföllum og dýpstu hræringum. O, ég held ég geti núna treyst og þurfi engu að halda til baka og geti gefið allt úr dýpstu hvelum svo rísi endalaus dagur. Allt sem ég hef fundið það brýst fram margfalt núna. Þetta er næstum óbærilegt.“ Og hún öll grætur burt með líkamanum öllum, þann sára langa kulda.
Himinhrjóður finnur mjúk sköp Máneyjar undir klæð¬unum, finnur mettandi rakann og lifnar æ meir. Hönd Máneyjar finnur hve hann lifnar og lifnar meir við það, í keðjuverkun kynorkunnar. Hann losar beggja belti því hún er önnum kafin í djúpinu að skynja álfuna lyftast og strekkjast og heims¬skautið þiðna. Hún finnur harðan Himin¬hrjóðs lim undir buxum og rennir sér niður sem hann leysir frá, svo skyndilega fær hún hann í lófann. Hann losar sig mjúklega úr heft¬andi klæðum meðan hún eflir hinn öfluga alheimsreður í greip sinni, undrast hve hann eins og dagur fyllir og tæmir himininn í senn, og í sömu bylgju liggja tveir hamlausir einlægir bersk¬innar hlið við hlið, páfugls¬stélið opnast og þenst í ótrúlegri litadýrð og rauður pokinn á bringunni þenst kvendýrinu til mikillar velþókn¬unar. Vinirnir úr Krist¬þyrna¬skógi horfast í augu á plaköt¬unum ofan við rúmið þegar Máney hefur sig upp og tekur að skína í nóttinni. Hún sest opin og heit á hægra læri hans digurt, sterkt og loðið svo um þau bæði fara heiftarleg munúðarhögg.

Drukknar vaða konur dagsins eins og skessur um Borgina, fallast í faðma, segja hvor annarri hálflygnar sigupp¬hefjandi sögur sem þær hvetja hvor aðra í fullkominni hræsni til að gefa út. Enda skeði til viðamikil útgáfu¬starfsemi í þjóðfélagsraunsærri reynslusagnfræði á vegum reynslurannsóknarnefndar. Þær grétu hver á annarar öxl og sórust í fóstsystralag fram af ætternisstapa. Erki¬grybban sem vélað hafði hinn ævintýralega dreifbýling sá fram á að fljótt yrði gleðinni lokið á þessum stað. Hún ákvað því að hverfa þegar af vettvangi með feng sinn til að forðast afkynjandi áhrif móðursýkinnar og biðröðu í fatageymslu og er skemmst frá því að segja að þau náðu sér furðu greiðlega í leigubifreið sem flutti þau hraðbyri heim til erkigrybbunnar í vesturbæ.
Hún plantaði dreifbýlingnum niður í hægindi stofunnar, og sem hún fann til glös og drykkjarvörur kallaði hún inn til hans herskáar einræður, heit eftir sólríkan dag. Eftir fundinn var fjarri sú hugsun að ástir krefjast næmrar samvinnu. Til að hita sig upp fyrir komandi samfarir úthúðaði hún nú karlkyni öllu langt aftur í aldir og fann því allt til foráttu, enda blossaði upp áralangt svekkelsi yfir forréttindum karlmanna og embættum þeirra lærðra og leikra um víðan heim.
Jós hún svo úr djúpum brunnum geðillsku, beiskju og umsnúinnar sjálfsfyrirlitningar og kenndi körlum um marglita ógæfu sína og systra sinna á framabraut, um sjúkdóma móður sinnar, móðurömmu og föðurömmu, og lét hann svo rækilega skilja að ekki mundi hann hótinu skárri en forfeður hans, vegna mengunar frá reynsluheimi karla blundaði óhjákvæmilega í honum rembu¬svín, kvenfyrirlítari og nauðgari. Síðasta orðið sagði hún með nautnalegum þunga þegar hún skellti drykkjunum á borðið, haganlega blönduðum nautnacockteilum, og horfði djúpt í augun inn. Undir drjúgum sopum sem hún svalg renndi hún svo augn¬steinum um styrka bringu hans og lék við hárin sem spruttu upp undan skyrtunni, svo mjög jókst lyst hennar. Dreifbýl¬ingurinn trúði henni fyrir því hann væri Dalamaður, saup barnslega og horfði á hana stórum votum augum, illa úr lagi genginn eftir ásakanirnar, sem herptust eins og herpinót um fáar og líflitlar sæðisfrumur sakir langvinnrar drykkju. Grybban sat digurlæra og gleið, bleytti stólinn, teygði til hans gilda arma og dró hann þéttingsfast til sín og laust hann miklum kossum. Nú hefði Dalamaðurinn þurft að hafa ástastafinn dverganaut, eins og hetja í fornald¬arsögu sem hittir fyrir dóttur konungs í Jötnaheimi.
Hún reisti hann upp og slefaði á hann blautum kossum, þrýsti að honum þungum æðaberum brjóstum sem brutust sjálf fram úr blússunni og dró hann inn í rúm. Hún ýtti honum aftur á bak uns hann skall á rúminu hálf óttasleg¬inn, og dró þá hlæjandi af honum allar brækur og skó í einum rykk. Var hann nú í engu nema svörtum lágsokk¬um. Mældi hún hann upp og niður og þótti lítið til ástatólanna koma, dró hann þó upp á sig bera, ók sér og skók og talaði til hans blíðu orðum, sem snerust í huga hans upp í fúkyrðin sem hún notaði undir hanastélsvélinni. „Hvernig á ég að geta?“ hugsaði hann og skipaði holdi sínu að hlýða, „upp upp mitt stál“ en óttinn magnaðist og mengaði blóðið sem streymdi ei sem skyldi.
Hún greip um liminn og vildi strokka, en kýrin var geld. Það lafði, það vildi ekki gagnast henni, það elskaði hana ekki, það elskar hana enginn. Ógerningur var að reisa við hold hans, svo djúpt hafði það sokkið undir tölunni. Þó hætti hún ekki að iða, slefa og nudda fyrr en henni ofbauð niðurlæg¬ing kvenkyns og síns heita skauts sem dróst saman í sárasta grátekka.
„Út, ógeðslegi aumingi,“ hrópaði hún grátandi meðan hann hisjaði upp um sig buxurnar og huldi feginn sín aumu tól. „Út!“ hrópaði hún, dró lakið þéttingsfast utan um sig, henti í hann skónum, skellti grimmilega í lás og festi öryggiskeðjuna.

Himinhrjóður er draumeilífð inni í henni Máneyju sinni og hún ríður honum í hægagangi, tölti, brokki, skokki og að lokum á stökki. Dómararnir í Reiðhöllinni kveða einni tungu upp þann dóm að hér hæfi ekki minna en gull, silfur, brons, demant og platína. Geislavirkir eðalmálmar koma vel til greina, en þykja of hættulegir vegna mann¬skæðrar náttúru sinnar. Þeir æðstu dómarar hafa sitt æðsta mottó, geri hver sem hann er góður til, ríðið sem mest guði til dýrðar.
En kossar hans hneigjast niður á við, svo þar kemur að Máney liggur á bakinu sínu góða, en Himinhrjóður, sá tungulipri eðaldrengur sleikir sem leið liggur niður að lífbeini. Hann hrinur fram af bjarginu og lætur tunguna varlega elta skoruna, ef skoru skyldi kalla, því nú er um gjá að ræða. Hann fer niður og upp og niður og inn og upp og beggja megin við snípinn og síðan framan á hann. Himinhrjóður vermir og skín og hýrt gleður, úr hásölum kirtilvæddrar karlmennsku sinnar, sem efld er af vísinda¬lega göfgaðri græðgi í að skynja rænuhvörf rammgraðrar gyðju, hljóð hennar og ósjálfráðar sjálfræðis hreyfingar. Hin silfraða Máney þiggur í þögulli vitneskju um að glatar öllu sem gefur ei. Hið kvika silfur myndar með samruna sínum við sólar sáðmálm æðsta stig heimspekigulls, og líkamsopin sem taka við, fyllast og spíta eru alheimar. Alheima er best.
Ástæðulaust er að leyna þeirri staðreynd hér og nú, að draugar og draugsur, mörg hver langlegin í aðgerðarleysi og dauðyflishætti þeim sem einkennir hið núverandi skrif¬stofu- og verslunarhús, vakna við sársælar útfrymisísæknar graðbylgjurnar. Því síður þarf að fjölyrða um það að allir ríða sem mest þeir mega, fógetafrúin í uppreimuðum támjóum skóm og síðu blúndupilsi og stúdent¬inn sem vegna rómanrískra meinbauga veitti kynþrá sinni gjarnan útrás í berklum. Hann fékk stundum fregnir frá útlöndum … og hótelvertinn sem reið öllu sem hreyfðist sér nú margt hreyfast, og saknar þess þá mest að hafa ein¬ungis einn lim, og hann úr eter. Hið ofurfrjóa forn¬veggjatítlukyn rís upp við dogg og fer samstundis að … nú þarf að ríða, hér þarf að mála mynd … að breyttu breyt¬anda … og merkir þar vertinn mikla hreyfingu, en gætir sín ekki sem skyldi, misreiknar stærðir svo nýupprisinn og festir liminn endan¬lega milli þils og veggja.
„Milli raun¬verulegar tilfinningar,“ segir stúdentinn á fógetafrúnni í miðri kviðu hálf¬kæfðri röddu og horfir á brjóst hennar hvít og fögur og endurtekur: „milli raun¬verulegar tilfinn¬ingar og hins myndræna samanburðar er samhengislaus forsendan skorðuð sem fjöl.“
Undir orðinu skorðuð nær hann sínu lága hámarki og segir enn:
„Kyn er jafnt þótt keraldið leki.“
Ríða urtubörn í útskerjum og öllum er sama, enda allir í þessum míkrókosmos hótel Alexandru keisaraynju í Reykjavík saman. Það veldur nokkru uppnámi þegar Alexandra sjálf birtist og gerir kröfu til þess að allir fari á hana í einu, konur sem karlar, veggjatittir sem veggja¬títlur, en ansi brátt verður sá leikur ljúfur, því líkamsop hennar eru endalaus og eðalstærðar og hver þar sína móður fann.
Hrærist nú allt sem hrærast má, líka vaggan sem var hér í eina tíð. Hin fátæklegu húsgögn, sem íslenskan í athugunar¬leysi hefur gert öll karlkyns, fara ofur eðlilega hvert á annað, og leita leiða til að losa leiða, því nú er sú stund að tími er til að tengja.
„Ráð er að ríða,“ segir stóll nokkur.
„Bágt er að bíða,“ segir borð þar nærri.
Húsið skekur sér á grunninum og öðlast við það ertingu sem skemmtanafíklar pressunnar hefðu gagn af að kynnast. Hver hefur haldið því fram að Hafnarstrætið sé kynlaust stræti? Þar eru iðkuð sjafnarlæti. Ekki er tími til að rekja þær keðjuverkanir sem eiga sér stað er Hverfisgatan svarar áleitni Kvosarinnar og borgin leggst saman í lokaða bók með margar blaðsíður stræta.
Nú er að segja frá þeim Himinhrjóði og Máneyju. Snýr hann sér nú við þannig að Máney, sem auðveldlegast nær limnum í lófa sér og gælir ögn við hann, áður en hún stingur honum upp í sig. Þau sjúgast á góða stund, hún undir, hann ofan á, en svo velta þau sér við og Himin¬hrjóður fer lengra með skáldtungu sinni inn í kuntuna, iðkar þar hringleik, en síðan yfir spöngina og inn í rassgatið sem orðið er í meira lagi mjúkt. Máney er óefniskennd orðin af mýkt. Annað veifið gýs hún sem eitt túristaundur og hann fær heitar gusur. Hann hættir um hríð og leyfir henni að einbeita sér að því að sjúga.
„Einbeittu þér nú yndið mitt og ímyndaðu þér allt það besta.“
Hann grípur um lítil og hnöttótt brjóst Máneyjar og kreistir í greip sinni, svo mun hún bera til minja merki nokkur brúnleit er til lengdar lætur. Nú rennir hann sér undan ástkonu sinni, háll sem áll, fimur sem fílsungi og fer á hana þar sem hvílir á hnjám og olnbogum. Hann fer fyrst ótrauður inn í píkuna, en síðan stingur hann sér á bólakaf í mjúkt en þétt rassgatið.
„Mörg er á þér matarholan, meyjavalið.“

Enn er árið eitt eftir auðnargönguna úr Egyptalandi. Ógæfuhliðin sem sígur mjög á boðar gæfu er kurl koma. Kominn er hundur í fundinn á Hótel borg, sem leitar í frumeindir sínar. Ringullinn (kk) og reiðan (kvk) stíga dans á glerhálum klettasillum hóphugs¬unar rænuheftra hugeggjasjónstokkhafa. Erlendir originalar hugsjónanna hafa enda brenglast mjög í meðförum. Drukknar brauðsokkur halda hver um aðra og syngja hástöfum fjárlagabrot sín, og er þar söngur í söng og sifjar víðs fjarri. Ár es alda, í fullri svo flóir fata¬geymslu. Við mörg borðanna er þó setið sem fastast, eins og lími hafi verið lætt í sessurnar af óprúttnum grínurum. Þar eru mál rædd sem þola enga bið, útgáfa kvennaritsins Láttu mig vera, og stofnun kvennakirkjugarðs.
„Dúkkur fyrir drengina,“ segir sportsokka nokkur.
„Drossíur handa dömunum,“ segir portsmokka önnur.
„Námskeiðar mjúkmenna dúna meir er telpur slást með blómskeiðum, franskloðnar á leggjum.“ Segir ein leysandi merkingar. „Sjö prósent lausn.“
„Heyr, heyr,“ segir Undína Eir. „Guð hefur vagínu og hefur vakið mig með henni. Að auki hefur hún gríðar¬sníp og barmar hennar minna á skurðinn í Panama, á ég þar við í vestrænum menningar(?)ríkjum.“
Þjónar reyna að fá þær til að fara með góðu, en það ætlar ekki að lánast svo örvæntingar tekur að gæta, enda snerta menning, mengun og Mengele sama streng. Ameríkumaðurinn og Rússinn standa við sinn bar og eru heima hjá sér. Ameríkumaðurinn tyllir léttilega fæti á barinn og útskýrir fyrir frænda sínum úr austrinu etým¬ológíu orðsins bar, sem sé stöngin er tillt sé fæti á. Þar með sé maður líka Sólón. So long Marianne.
„This is a bar,“ segir hann og bendir á járnstöng þar undir tá.
„The socialistic revolution in my beautiful country has barred my home even after the fall of the iron curtain, such is the splendor of the thoughts of Lenin, Stalin and Leo Tolstoj. Whose was the glory? Long live the mummified body that once kept the brilliance along with his syphilistic rav¬ings. I’m talking about the first mentioned, because one body was moved away and another one never entered the shrine. Bottoms up for the bureaucracy of the downmost bottoms.“
„Arses you mean? Is that what you mean? Decent mooning is the privilege of women.“
Þessir heillakarlar þurfa hvergi að fara, þar sem þeir búa þarna á hótelinu sem glímukonungur þjóðarinnar reisti fyrir glímufé í árdaga. Fár vas falda. Þeir sjá ekki eina einustu kvenveru sem þeim litist á að setja í poka og taka með sér í svítu sínu að hafa af gögn og gæði. Hins vegar lýst þeim ekki illa hvorum á annan. Þeir skannast á frá toppi til táar, skiptast á merkjum og boðum af vaxandi skýrleik og teiknrófið er farið endanna á milli. Það tekur drjúga stund og á meðan hleðst upp löngun áranna og aldanna, meðan kalt stríð geysaði í heiminum. Þeir eru svo frávita af losta að lyktum, að á leiðinni upp froðufella þeir hvor inn í annars óhjúpuð líkamsop og hefjast handa við að losa diplómatadraktirnar hvor utan af annars líkama. Kemur nú í ljós að líkamir þeirra eru ekki ósvipaðir.
Þegar þeir hafa farið langa langa leið í lyftunni stað¬næmist hún á hæðinni ógurlegu, þar sem svítan bíður þeirra og þeir eru varla fyrr komnir inn en þeir leggjast til atlögu og sviptast klæðum. Þeir hyggjast kveikja hóflega björt ljós en þrýsta þá af fákunnáttu á fullmarga hnappa. Þannig atvikast það að sem þeir umvefjast í bríma sínum í margbreiðu rúminu standa þjónusturnar hringinn í kring í stuttum svarthvítum einkenniskjólum sínum, innahandar með það smálegt sem þeir þarfnast við iðju sína. Rétta þeim K-Y, bregða kodda undir lend, hagræða þeim hvorum fyrir öðrum, strjúka með köldum klút um enni þeirra og margt margt fleira sem of langt mál yrði upp að telja. Ein tekur myndir í fjölskyldualbúmin. Hún hefur verið á námskeiði. En ekki líður á löngu þar til þeir snöggpirrast. Þeir ýta á hnapp og það skiptir um kyn á þjónustunum.
En uppi í turninum í sjálfu turnherberginu er persil¬klukkan komin. Hún dansar tímalausan stunda- og slæðu¬dans, nakin undir léttvægum stundunum og slæðunum, frjáls undan oki tímans. Steinmaðurinn flöktir einnig frjáls um hug hennar er hún dansar. Einhver sér til hennar og býður þess aldrei bætur.

Undir súðinni í þakherberginu við Hafnarstrætið leika sér Máney og Himinhrjóður í himinsæng, sem fer stækk¬andi og minnkandi á víxl. ¬Þau eru til skiptis ofan á og undir hvort öðru og vísa ýmist saman höfuð eða sundur eða sitt á hvað. Bleytan frá þeim í rúminu kólnar og hlýnar á ný, er Himinhrjóður fer eins og vísir á villiklukku milli líkamsopa og krika hring eftir hring. Þau hægja á skemmtuninni og hvíslast þá á frásögnum af fornum uppáferðum sínum, og eykst þeim þá greddan og þau hamast nokkra hríð. Himinhrjóður hefur á langri legferð sinni aldrei í slíka kuntu komist. Hann sprautar því hverri hleðslunni á fætur annarri inn í það op öðrum fremur. En Máney lætur sér duga að smakka einu sinni og segir nammo. Nokkrar lenda inni í endaþarmi, því Himinhrjóði geðjast vel hinn þröngi farvegur, þó svo mjúkur af hjakk¬inu. En þess á milli liggja þau þó afvelta að safna kröftum í næstu atrennu. Það er sem þau aldrei hafi riðið fyrr og muni aldrei aftur fá að ríða, hvorki þessa heims né annars.

Þjónunum okkar gengur treglega að koma hinum vígreifu valkyrjum út af skemmtistaðnum, þó löngu sé búið að loka að boði yfirvalda í Asíu fjær. Þær sitja eða standa sem fastast loðkefjaðar með handleggi um hver annarrar mitti eða axlir, og sem drynji í þeim, en stundum er unnt að bera kennsl á lagstúfa, örstutt brot.
„Samtaka systur, kallið er komið.“
„Vald vag-ín-u, strax, strax, strax, …“
„Fram fram legið, stokkum spilin, hvað sem segið, rokkum gilin og fokkum fylin.“
„Með snörpum snípum, sneypist karlakyn, …“
„Úrelta tilla, enginn gillar, þótt þið tsjillið og séuð millar …“
Allt karlkyn er á brott úr salnum, utan þjónar. Hinir mjúku karlmenn eru komnir heim með hörðum konum sínum, vímuðum af valdatilfinningu. Þær sem eftir eru í sal og göngum og anddyri, tregðast við, ekki af þrjósku, heldur fremur af skilnings- og tillitsleysi og villuráfandi kynhvöt. Þær skilja hvorki þarfir eigin kropps né annarra. Kæling leggst á bælingu ofan svo úr verður spæling. (Sem sýnt var síðar með mælingu.)
Þjónarnir og þjónusturnar reyna með góðu að lempa þær út, og vilja í lengstu lög forðast vandræði og illdeilur. Þær gætu ekki sammálari verið.
Undiryfirgrybban er komin í kápu sína. Hún hefur haldið sig í hópi nauð¬ljótra skassa, sem hlussast áfram í tak¬markalausri sjálfum¬gleði, en hefur nú orðið vanskila við ætt sem óðöl. Hún reikar um anddyrið, skyndilega eins og ofurlítið sljó eftir allan hamaganginn. Það er engu líkara en að henni sæki einhver efi, þó ekki þannig að hún beri á hann kennsl, en sann¬færing hennar dugir ekki í augnablikinu. Hún finnur fyrir nafnlaust gapandi hyldýpistómi. Hefur afrekað það að neita svo kyrfilega djúpi sínu að það hefur bókstaflega horfið og ofboðslegt þrúgandi tóm gagntekur hana. Á öðrum tíma hefur verið þarna á ferð geðvilltur skæruliði, Himinhrjóður að nafni, sem leggur það í sinn lúmska vana að koma fyrir sprengjum í klofi fólks, svo vel kristið fólk uppgötvi að það hafi dýrklof. Þessa iðju stundar hann með ýmsu móti, og notar til þess bæði líkama sinn, líkama annarra manna og dýra, og ýms hjálpartæki, tól og muni. Nú hefur hann látið verða á vegi undiryfirgrybbunnar bók úr eigu sinni The sensuous woman, hún rambar á þessa lausn sem liggur sakleysisleg á gólfinu, en fráhrindandi þó. Engin leið er að sjá hvílíkt gjöreyðingarvopn þetta er.
Undiryfirgrybban lítur niður og hrifsar til sín bókina. Hún lítur í kringum sig paranojuð, en vangef¬inn piccolo er einn nærstaddur. Stendur hún þar augnablik blaðandi í ritinu. Hún veitir því ekki athygli hvaða efni streyma beint af síðunum inn í fingur hennar, en sér orð og setningar sem eins og kveikja í löngu týndum og gleymdum tundurþræði. Hin kafloðna undiryfirgrybba horfir skelfd í kringum sig, en læðir því næst bókinni inn á sig bera, steðjar út á Pósthússtrætið og svo beinustu leið heim til sín í gamla grenið þar sem gæfuleysið fléttast sem vafningsviður með veggjunum. Illkvittinn búálfurinn syngur sem fyrr: kafloðin og keyrir trukk og kann ekki að fá það, hvað er nú, hvað er nú, hvað er nú til ráða.

Himinhrjóður og Máney liggja afvelta. Hún liggur á bakinu með lærin sundur og svalt loft frá hálfopnum þakglugga kælir brennandi sköpin. Við hlið hennar liggur Himinhrjóður á maganum og skoðar efri hluta Máneyjar gauamgæfilega með augum sínum og fingrum. Hann fer höndum um hárið, ennið, kinnarnar, kannar hökuna og hálsinn og kyssir í kríkann, heldur svo áfram fingrum, höndum, augum og vörum niður á axlirnar, upphandleggina, handakrikana og barmana. Hann rannsakar brjóst Máneyjar sem vendilegast. Þau eru nákvæmlegaa eins og Himin¬hrjóður vill hafa þau og hann mátar þau í greip sinni. Síðan kannar hann hvern agnarlítinn blett brjóstanna, skoðar og sleikir og athugar viðkomuna. Snögglega er eins og eitthvað hart verði fyrir snertingu hans í hægra brjóstinu. Hann skoðar betur, klípur og veltir milli fingra sér. Æxli – krabbameini skýtur upp í huga hans, en Máney hristir höfuð sitt yfir þeirri hugsun. Klíptu fastar segir hún, eins fast og þú getur. Himinhrjóður klípur enn fast í og limurinn harðnar, hann klípur enn fastar og út úr brjóstum Máneyjar taka að velta og rúlla litlir glóandi steinar. Hann hættir ekki fyrr en allir harðir hnúðar eru komnir út úr brjóstum hennar og í rúminu glitrar á haug af furðustórum demöntum.
„Það er fjársjóður í brjóstum þínum,“ segir Himinhrjóð¬ur, …
„… en aðeins þú gast fundið hann,“ segir Máney. „Við verðum að eiga eitthvað til að kaupa hús fyrir börnin okkar.“

Þau ákveða að fá sér göngutúr í morgunsárinu. Þau ganga út í Hafnarstrætið og inn Pósthússtræti. Þau beygja út Austurstrætið og síðan fara þau Lækjargötuna og Frí¬kirkjuveginn. Þau ganga eftir Hringbraut. beygja síðan í átt að Öskjuhlíð, ganga fram hjá Valsheimilinu, hneigja sig fyrir Séra Friðrik, fara eftir stokkunum og stefna á tankana. Á leiðinni uppgötva þau hemið, hið veiklulega sem hemur hamsleysið og heldur öllu saman. Þau eru í göngutúr um Öskjuhlíðina, í góðri reiðu á vissum tíma árs og dags. Hamsleysið lýtur nú stjórn.
Rafmagnshemið umlykur kvendýrið stóra, jörðina.
Himinn er heminn, hominn og haminn, hamsamfarir, hamsæði í lófa, hemsæði í munn, hem, ham, hamfarir, samfarir. Hamsatólg. Hem, Kam og Jafet.
Að fara hemförum. Að rjúfa hvors annars hem. Það er málið. Hemmey. Heminhrjóður. Í himinrjóðri Nauthóls¬víkurmegin ríða þau á steini í 365 gráður, fimm virðulegar kanínur horfa á. Meyjarhemið. Sveinshemið. Hemsvein og Meyhem. Hvað boðar stelling blessuð sú?
Þau ganga þá niður í Nauthólsvík og upp hlíðina á ný. Öfuguggar svamla í kjarri, fjórfótungar ríða í rass, aðrir geyma höfuð ástpilta milli fóta sér og eru sognir. Sjö ungkanínur og Tasmaníuskolli liggja á gæjum bak við tré og hugsa að blítt sé ungsmanns blævirki. Taka svo til gjörspilltra málanna. Sjaldan sé hem úr hömlu.

Meðan Himinhrjóður og Máney ganga saman á Öskjuhlíð hrynur dagur yfir því grybbur hafa tekið til óspilltra málanna. Veldi karla – sígyllandi og silfrandi konur sínar í upphlutum niðurhlutans vegna – rennur úr böndum um leið og bandið fer af konum. Um skeiðskipti hin stóru er skeið hinna valdalausu skeiða að verða ólíðandi fortíð. Einangraðir hryðjufrömuðir bandittast í bönkum víða um grund um stund, lyppast fljótt niður með skömm og sínu skammgóða typpi.
Þann sama morgun hefjast enda hræfarir. Eigi vil ég leg mitt hafa í lógabúri því, er fyrirsögnin í fyrsta tölublaði Láttu mig vera er þá kemur út í takmörkuðu elítu upplagi. Vonir standa til að gróður hins nýja kvennakirkjugarðs sýni líf og list kvenna í réttu ljósi, enda kemur tíminn bara, sem Inúítar segja, hann fer ekkert. Það sem líður kemst hvorki lönd né strönd heldur liggur undir yfir og ofan á sem misvæn mara. Það má skræma málið meira.
Konur hefjast skyndilega til æðstu metorða, jafnvel húsmæðraskólamenntaðar eiginkonur ráðuneytisstjóra og leigustýrur. Í áttræðisafmæli kvenforsetans sögðu öll: „nú er gaman!“© því kona var forsætisráðherra, kona borgarstjóri, kona háskólarektor og kona formaður sambands listamanna. Í salnum var bæði fyrrverandi kona og dóttir bæjarrónans og Kristinn Sigmundsson fékk að syngja Draumalandið svo táruðust mörg þúsund pör af augum. The conman became obsolete. Klóraði kona sér: „er mig að dreyma?“ Gerðist hún maskú-hlín-isti upp á ballansinn. Versgú. Tíðindi og tilskipanir fóru upp á Kringlukrá (Æðahnútinn) og í Smáralind.

Typpin hafa dofnað, en ekki alveg sofnað.
Kyngreinaálit fokin veður í og vind.
Dagskipanir kynntar með einblöðungum.
Ekkert fari fram hjá flugu.
Með blindraletri þar sem blindir strjúka.
Handalausir sleikja bolla og ílát.
Óskráð typpi afskorin.
Lög sett gegn ólöglegum typpaburði.
Afturvirk nauðgunarlög í aldir aftur virkjuð.
Kvendómstólar settir á laggir.
Börnin segja að mamma ráði heima.
Karlmaðurinn dreginn fyrir rétt fyrir nauðg¬un.
Konan enda ævinlega tekin nauðug.
Börnin tilkynni raunheimavöld.
Republik verði refemin.

Öskjuhlíð er risabrjóst. Þar ofan við sárið eftir hafnargrjótið, sem flís fór úr forðum í auga, situr Máney og horfir á Keili. Þríhyrningur sá sem markast af bílstjóra og bráðamey og Thurn und Taxis er í rauninni innhyrningur og úthyrningur. Finnur þá Máney fyrir hrær¬ingum í kvið sér. Hún fylgist nákvæmlega með, bærir vart anda. Setjast þá hlið við hlið þau Máney og horfa yfir bæinn. Þótt skammt sé liðið síðan Himinhrjóður sæddi Máney, geta þau með sérstakri aðferð í sameiningu fundið að líf það sem kviknað hefur í skauti Máneyjar er fimmfalt. Hýsir hún nú fimmbura í móðurskauti sínu.
Til þess að fimmburarnir eigi sér eldri systkin er þeir potast í heiminn panta þau Himinhrjóður og Máney sér eftir leynilegum leiðum nítíu og fimm börn frá útlöndum af öllum mögulegum litum, gögnum, gæðum og gerðum og innan skamms kemur sendingin til landsins í gömlum frystigámum, með falsaðri faktúru.
Þau selja nú hluta af fjársjóði þeim er spratt úr brjóst¬um Máneyjar og kaupa sér einbýlishöll til að hýsa öll börnin. Máney belgist út. Þau ríða enn frekar á hlið eða doggy style. Spretta þar laukar er tefla refskák í túni með allt uppi á borði, gagnsætt. Hvað samfélagið varðar.

Undiryfirgrybban stúderar bókina The sensuous woman gaumgæfilega og æfir sig eftir forskriftinni, þjálfar sig alla til mýktar, með sérstakri áherslu á vöðvana sem hræddastir eru við kirkjulegar hýðingar, drekkingarhyl og hengingaról. Verður brátt svo fær í þessari grein að hún getur nælt sér í yfirlækni og þau verða ákaflega hamingjusöm í bólinu. Hún sigrar hann gersamlega með kunnáttu sinni og heiðinni innvöðvaleikni, og hann verður hálfu betri kvenskurðlæknir en áður og hlýtur Nóbelsverðlaun. Jafnframt er hann síðasti karllæknir sem iðkar kvenskurð.

Draga má lærdóm glóðheitum töngum
af sögu þessi
en hér er þó Endir … svo langt sem það nær
meir lesandi kær hér ekki þú fær.
Liðka þitt kvenskuð og lít þér nær.
Mennskuð er mær.